Innlent

Funduðu um þriðja orku­­pakkann í Ráð­herra­bú­staðnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá fundinum í Ráðherrabústaðnum í dag.
Frá fundinum í Ráðherrabústaðnum í dag. vísir/vilhelm
Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna, komu saman til fundar í Ráðherrabústaðnum í dag klukkan 13:30 til að ræða þriðja orkupakkann.

Fundinum lauk áður en þingfundur hófst klukkan 15 en þetta er í annað skiptið á yfirstandandi þingvetri sem þingflokkar stjórnarflokkanna eru kallaðir saman til þess að ræða þriðja orkupakkann.

Málið er umdeilt innan stjórnarmeirihlutans og hefur til að mynda Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagt að hann telji innleiðingu hans fela í sér framsal á fullveldi Íslands. Þá er mikil andstaða við þriðja orkupakkann innan grasrótar Framsóknarflokksins.

Var fundurinn í dag hugsaður til upplýsingagjafar varðandi það hvar málið er statt hjá ríkisstjórninni.

Ferli málsins þegar það kemur til kasta þingsins er á þann veg að fyrst þarf að samþykkja þingsályktunartillögu um reglugerð ESB um þriðja orkupakkann en pakkinn fellur undir EES-samninginn. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, leggur slíka þingsályktunartillögu fram.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, leggur svo fram frumvarp vegna þeirra breytinga sem gera þarf á lagaramma orkumála vegna þriðja orkupakkans.

Hvenær þriðji orkupakkinn mun koma inn til Alþingis liggur ekki fyrir en málið er enn á þingmálaskrá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×