Enski boltinn

Safna fyrir lögfræðikostnaði fyrir handtekna stuðningsmenn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stuðningsmenn Newcastle óðu inn á völlinn
Stuðningsmenn Newcastle óðu inn á völlinn vísir/getty
Stuðningsmannafélag Newcastle hefur sett af stað netsöfnun til þess að borga lögfræðikostnað stuðningsmanna sem voru handteknir á leik Bournemouth og Newcastle.

Stuðningsmenn Newcastle ruddust inn á völlinn eftir jöfnunarmark Matt Ritchie í uppbótartíma leiksins á Vitality leikvangnum.

Fimm stuðningsmenn voru ákærðir fyrir að hafa hlaupið inn á völlinn, en ein lögreglukona er sögð hafa meiðst á nefi í átökunum. Málið er enn í rannsókn hjá lögreglu.

Stuðningsmennirnir fimm þurfa að mæta fyrir dómi í byrjun apríl.

Allir fimm eru karlmenn á aldrinum 18 - 40 ára. Fjórtán ára drengur var handtekinn í tengslum við málið en honum var sleppt á meðan rannsókn stendur.

Stuðningsmannafélag Newcastle vill safna peningum fyrir lögfræðikostnaði og kostnaði við ferðalög til og frá réttarsal fyrir fimmmenningana.

„Að okkar mati eru þessir stuðningsmenn ekki sakir um neitt nema að fagna marki á 94. mínútu leiks,“ sagði á söfnunarsíðunni.

„Það er mikilvægt að gera mun á raunverulegum óeirðum og fólki sem ræðst inn á völlinn til þess að trufla og valda usla og hins vegar fagnaðarlátum.“

„Við höfum rætt við fjölskyldur flestra þeirra sem voru handteknir og það var enginn vilji fyrir því að brjóta reglur. Engir leikmenn hlutu skaða og stuðningsmönnum heimaliðsins var ekki ögrað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×