Enski boltinn

Klopp ráðleggur Mo Salah að gera það sama og Mané gerði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mané er alltaf á réttum stað þessa dagana á meðan ekkert fellur fyrir Mo Salah. Ætli Senegalinn sé kannski að ræða það við Egyptann á þessari mynd.
Sadio Mané er alltaf á réttum stað þessa dagana á meðan ekkert fellur fyrir Mo Salah. Ætli Senegalinn sé kannski að ræða það við Egyptann á þessari mynd. Getty/Shaun Botterill
Tveir markahæstu leikmenn Liverpool eru ekki alveg á sama staðnum í dag því á meðan annar skorar í hverjum leik hefur hinn ekki skorað í sjö leikjum í röð. Samtals eru þeir þó með jafnmörg mörk á tímabilinu.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur tjáð sig um þessa tvo markahæstu leikmenn Liverpool liðsins sem eru að upplifa svo ólíka hluti þessa dagana. Á meðan Mohamed Salah er ískaldur hefur Sadio Mane aldrei verið heitari.

Klopp er á því að Sadio Mané sé hreinlega að uppskera fyrir alla þá vinnu sem hann hefur lagt á sig og af þeim sökum séu hlutirnir að falla fyrir hann.





„Sadio hefur alltaf spilað svona en núna er hann alltaf á réttum stað á réttum tíma. Þetta er stundum svona í fótboltanum,“ sagði Jürgen Klopp í viðtali við heimasíðu Liverpool

Mohamed Salah hefur vissulega skorað tuttugu mörk í öllum keppnum á tímabilinu en síðasta markið hans kom á móti Bournemouth í byrjun febrúar.

Sadio Mané skoraði ekki í átta leikjum í röð í nóvember og desember og þá skoraði hann aðeins þrisvar sinnum í sautján leikjum. Á þeim tíma var Salah að raða inn mörkum.

Undanfarnar vikur hefur Mané sjóðhitnað og er nú með 11 mörk í síðustu 11 leikjum sínum og enn fremur 13 mörk í síðustu 17 leikjum.





Mohamed Salah hefur aldrei þurft að bíða lengur eftir marki síðan að hann kom til Liverpool en hann upplifði það þó að skora ekki í tíu leikjum í röð 2015-16 tímabilið með Roma.

Það eykur síðan örugglega á pirring Egyptans að honum vantar aðeins eitt mark í það að hafa skorað 50 deildarmörk fyrir Liverpool.

Jürgen Klopp bendir sérstaklega á dugnað og vinnusemi Sadio Mané og telur að með því hafi hann komið sér betur upp á tærnar og á staði þar sem hann fær tækifæri til að skora mörk.

„Það eina sem hann gerði þegar hann var ekki á réttum stað á réttum tíma var að vinna meira í sínum leik og leggja meira á sig við æfingar. Það er einmitt það sem Mo þarf að gera núna. Vinna, gera réttu hlutina og þetta fer að falla með honum á ný,“ sagði Klopp.

„Mo er frekar óheppinn þessa dagana á meðan Sadio hefur heppnina með sér. Sadio er auðvitað í stórkostlegu formi og á því er enginn vafi. Hann er á frábærum stað í dag,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×