Enski boltinn

Mané og Salah jöfnuðu afrek Rush og Dalglish

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mané og Mohamed Salah fagna en til hægri eru þeir Ian Rush og Kenny Dalglish.
Sadio Mané og Mohamed Salah fagna en til hægri eru þeir Ian Rush og Kenny Dalglish. Samsett/Getty
Sadio Mané og Mohamed Salah eru markahæstu leikmenn Liverpool á leiktíðinni og svo öflugir saman að það þarf að fara allt aftur til Ian Rush og Kenny Dalglish til að finna samskonar tvíeyki í framlínu Liverpool.

Sadio Mané og Mohamed Salah eru nú báðir komnir með tuttugu mörk á tímabilinu og það eru liðin 36 ár síðan að Liverpool-tvíeyki náði því tvö tímabil í röð.Á síðasta tímabili skoraði Mohamed Salah 44 mörk og Sadio Mané var með 20 mörk. Nú eru þeir báðir komnir með 20 mörk þökk sé ellefu mörkum í síðustu ellefu leikjum hjá Mané.

Síðasta sóknartvíeyki Liverpool þar sem báðir fóru yfir 20 mörk tvö tímabil í röð var skipað Liverpool goðsögnunum Ian Rush og Kenny Dalglish. Þeir náðu því tímabilin 1981-82 og 1982-83.

Ian Rush skoraði 30 og 31 mark þessu tvö tímabil en Dalglish var með 22 og 20 mörk. Bob Paisley var þá stjóri Liverpool og liðið vann ensku deildina og enska deildabikarinn bæði tímabilin.

Það er síðan bara eitt framlínupar í sögu Liverpool þar sem báðir hafa skorað yfir 20 mörk á þremur tímabilum í röð. Það voru þeir Roger Hunt og Ian St John sem náðu því undir stjórn Bill Shankly tímabilin 1961-62, 1962-63 og 1963-64.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.