Erlent

Stærðarinnar sprenging í efnaverksmiðju í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Verksmiðjan sem um ræðir er í borginni Yancheng og er skordýraeitur framleitt þar.
Verksmiðjan sem um ræðir er í borginni Yancheng og er skordýraeitur framleitt þar. Mynd/Weibo
Stærðarinnar sprenging varð í verksmiðju í austurhluta Kína í morgun. Slys sem þessi þykja algeng í Kína. Verksmiðjan sem um ræðir er í borginni Yancheng og er skordýraeitur framleitt þar. Ekki er vitað hvort einhverjir hafi látið lífið en tólf eru sagðir hafa slasast. Slökkviliðsmenn vinna að því að slökkva elda í verksmiðjunni.

Samkvæmt South China Morning Post olli sprengingin miklum skemmdum á nærliggjandi byggingum og öðrum hlutum og greindist þriggja stiga jarðskjálfti sem rakinn er til sprengingarinnar. Íbúi borgarinnar sem býr í um eins og hálfs kílómetra fjarlægð frá verksmiðjunni segir allar rúðurnar í íbúð sinni hafa sprungið.



Myndbönd af sprengingunni hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum í Kína.

Eins og áður segir þykja iðnaðarslys algeng í Kína. AFP fréttaveitan rifjar upp að nú í nóvember sprakk gámabíll í loft upp við efnaverksmiðju í Zhanghiakou og 23 létu lífið. Í júlí varð sprenging í efnaverksmiðju í Sichuan og þar dóu 19 manns.

Einnig má rifja upp brunann í birgðageymslu fyrir eldfim efni í Tianjin árið 2015. Gífurlega stórar sprengingar urðu þar og dóu minnst 165 manns. Sprengingarnar ollu einstaklega miklum skemmdum.

Reiði Kínverja gagnvart þessum slysum hefur aukist á undanförnum árum og hafa yfirvöld heitið því að bæta öryggi og umsjón með efnaverksmiðjum í landinu. Deilt er þó um hve mikill árangur hefur náðst í þeim efnum. Til dæmis þá hefur fyrirtækið sem rekur verksmiðjuna verið sektað sex sinnum vegna mengunar, lélegs frágangs úrgangs og annarra mála sem snúa að öryggi og umhverfisskaða, samkvæmt SCMP.

Hér að neðan má sjá samantekt af myndböndum frá brunanum og sprengingunum í Tianjin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×