Enski boltinn

Gylfi er einu klúðri á vítapunktinum frá því að setja met sem enginn vill eiga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór reynir að fagna markinu á móti Chelsea en er svekktur að hafa brennt af vítinu.
Gylfi Þór reynir að fagna markinu á móti Chelsea en er svekktur að hafa brennt af vítinu. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands og leikmaður Everton, er einu klúðri á vítapunktinum frá því að setja met í ensku úrvalsdeildinni sem enginn vill eiga.

Gylfi Þór er nefnilega búinn að klúðra þremur vítaspyrnum á tímabilinu en nú síðast lét hann Kepa Arrizabalaga, markvörð Chelsea, verja frá sér í síðustu umferð fyrir landsleikjafrí. Gylfi fylgdi reyndar á eftir og skoraði tólfta mark sitt á tímabilinu úr frákastinu.

Enginn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hefur brennt af fjórum vítaspyrnum á sama tímabilinu en Gylfi er nú kominn í hóp goðsagna sem hafa klúðrað þremur spyrnum sama veturinn frá því enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar árið 1992.

Mike Newell, leikmaður Blackburn, var sá fyrsti en hann klúðraði öllum þremur spyrnum sínum á fyrsta tímabili ensku úrvalsdeildarinnar 1992/1993 og Teddy Sheringham gerði slíkt við sama sem leikmaður Tottenham og Manchester United tímabilin 1994/1995 og 1997/1998.

Alan Shearer, Ruud van Nistelrooy og Wayne Rooney eru allt leikmenn sem hafa klúðrað þremur vítaspyrnum sama tímabilið og nú er Gylfi kominn í þann hóp ásamt Paul Pogba, miðjumanni Manchester United, sem einnig hefur þrívegis klikkað á vítapunktinum í vetur.

Pogba er því sömuleiðis einni spyrnu frá því að setja met sem enginn vill eiga en hann er búinn að klúðra þremur af átta en Gylfi þremur af fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×