Fótbolti

Gylfi: Eitt lélegasta landslið sem ég hef mætt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var sáttur með stigin þrjú sem Ísland fékk fyrir sigurinn á Andorra í undankeppni EM 2020 í kvöld.

„Þetta var fín byrjun. Þetta var ekki hinn hefðbundni landsleikur. Samt sem áður var fínt að halda hreinu og stjórna leiknum,“ sagði Gylfi við Vísi eftir leik. 

„Við vissum að myndum vinna leikinn en staðan 1-0 er hættuleg. Við stjórnuðum leiknum ágætlega og þeir fengu ekki mörg færi. Það var aðallega þegar þeir hentu sér niður og fengu aukaspyrnur að það skapaðist smá hætta.“

Gylfi gaf liði Andorra ekki háa einkunn. „Þetta er arfaslakt lið en það er samt erfitt að koma hingað. Gervigrasið er mjög lélegt og eitthvað sem við erum ekki vanir. Það var erfitt að ná upp hröðu spili. Þeir hentu sér niður í sífellu og voru alltaf meiddir. Við gerðum vel og förum sáttir héðan,“ sagði Gylfi. 

„Þeir pressuðu ekkert og þetta er eitt lélegasta landslið sem ég hef spilað á móti. Við erum ekkert himinlifandi með spilamennskuna en mótspyrnan var engin. Það eiga samt einhver lið eftir að vera í basli hérna. Þess vegna er gott að byrja á sigri.“

Á morgun heldur íslenska liðið til Parísar þar sem það mætir heimsmeisturum Frakka á mánudaginn. Það verður allt öðruvísi leikur.

„Þetta eru leikirnir sem við viljum spila; gegn heimsmeisturum Frakka í París. Vonandi getum við strítt þeim. Þetta verður allt öðruvísi leikur en í kvöld. Frakkarnir verða miklu meira með boltann en við þurfum að vera þéttir eins og í síðasta leik gegn þeim. Þetta verða mikil hlaup og við þurfum að sækja hratt þegar við fáum tækifæri til þess,“ sagði Gylfi að lokum.


Tengdar fréttir

Viðar: Ég og Kjarri erum góðir vinir

Viðar Örn Kjartansson var búinn að ákveða að fagna eins og hann gerði ef hann skyldi skora gegn Andorra í kvöld, sem og hann gerði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×