Innlent

200 milljóna króna dagsektir vegna nýs Herjólfs

Sighvatur Jónsson skrifar
Smíði nýs Herjólfs er á lokastigi en óvíst er hvenær skipið verður afhent Vegagerðinni vegna kröfu skipasmíðastöðvarinnar um viðbótargreiðslu. Vegagerðin álítur kröfuna ekki í samræmi við samning og telur dagsektir vegna seinkunar verksins nema 200 milljónum króna.

Samninganefnd Vegagerðarinnar fór á fund fulltrúa skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. í Póllandi í vikunni. Rætt var um lokauppgjör vegna smíði nýs Herjólfs. Vegagerðin gerði skipasmíðastöðinni tilboð, búist er við svari á næstu dögum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni fer skipasmíðastöðin ekki fram á viðbótargreiðslu vegna aukaverka. Ástæða aukagreiðslunnar er sögð vera hærri heildarkostnaður við framkvæmdina en upphaflega var gert ráð fyrir.

Herjólfur í prufusiglingu í Póllandi.Vegagerðin

Afhending dregist

Eitt af þeim atriðum sem tekist er á um eru dagsektir vegna seinkunar verksins. Í fyrstu átti að afhenda nýjan Herjólf 1. júní í fyrra. Vegna breytinga var afhendingu seinkað til 1. ágúst á síðasta ári. Þá var samið um 140 daga seinkun til viðbótar. Svo tók við 30 daga tímabil án dagsekta.

Vegagerðin miðar við að dagsektir hafi fallið á verkið frá miðjum janúar síðastliðnum. Dagsektir nema 25.000 evrum fyrstu 90 dagana, rúmum þremur milljónum króna á dag. Eftir það eru dagsektir 12.500 evrur, ríflega ein og hálf milljón króna á dag.

Vegagerðin telur dagsektir vegna smíði nýs Herjólfs nema samtals 200 milljónum íslenskra króna.

Smíði Herjólfs er á lokastigi. Úttektir og prófanir eru eftir. Vegagerðin metur það svo að skipið geti verið tilbúið til afhendingar um næstu mánaðamót, að því gefnu að samningar náist við skipasmíðastöðina um lokauppgjör.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×