Enski boltinn

Sjáðu þegar Gerrard mætti aftur á Anfield um helgina og skoraði sigurmarkið fyrir framan Kop

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard og Kenny Dalglish fagna sigri eftir leikinn, Dalglish stýrði Liverpool liðinu ásamt Ian Rush.
Steven Gerrard og Kenny Dalglish fagna sigri eftir leikinn, Dalglish stýrði Liverpool liðinu ásamt Ian Rush. Vísir/Getty
Endirinn á goðsagnaleik helgarinnar á Anfield gat líklega ekki verið skrifaður betur fyrir stuðningsmenn Liverpool. Hetja Liverpool og fyrirliði liðsins í meira en áratug skoraði þá frábært sigurmark fyrir framan Kop-stúkuna.

Steven Gerrard skoraði nefnilega sitt fyrsta mark á Anfield í fimm ár um helgina þegar hann sá til þess að goðsagnarlið Liverpool vann 3-2 sigur á goðsagnarliði AC Milan í góðgerðaleik á Anfield, heimavelli Liverpool.

Steven Gerrard er uppalinn hjá Liverpool var leikmaður aðalliðs félagsins frá því að hann var átján þar til að hann var 35 ára. Hann fór frá Liverpool 2015 og samdi við bandaríska félagið LA Galaxy.

Gerrard var bara í eitt ár hjá LA Galaxy og er nú knattspyrnustjóri skoska félagsins Rangers. Hann gaf sér tíma í landsleikjahléinu til að skella sér suður til Liverpool og klæðast aftur Liverpool-treyjunni.

Gerrard náði aldrei að verða enskur meistari með Liverpool en lyfti Evrópubikarnum eftir sigur í Meistaradeildinni árið 2005, vann fjölda annarra titla og er almennt talinn vera einn allra besti leikmaðurinn í sögu Liverpool.

Hér fyrir neðan má sjá þetta glæsilega sigurmark sem Steven Gerrard skoraði í leiknum en þetta var svona klassískt Gerrard mark. Markið kom undir lok leiksins eftir að ítalska félagið hafði unnið sig inn í leikinn.





Það vour fleiri goðsagnir að skora í þessum ágæta leik en 50 þúsund manns mættu á Anfield og allar tekjur af honum fóru til góðsgerðasamtaka félagsins.

Robbie Fowler og Djibril Cisse höfðu komið Liverpool í 2-0 en AC Milan náði að jafna með mörkum Andrea Pirlo og Giuseppe Pancaro.

Andrea Pirlo skoraði marki sitt með skoti beint úr aukaspyrnu sem minnti okkur á hversu frábær fótboltamaður Ítalinn var.

Hér fyrir neðan má annars sjá svipmyndir frá þessum góðgerðaleik og hin mörkin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×