Erlent

Vandræði með geimbúninga kemur í veg fyrir fyrstu geimgöngu kvenna

Samúel Karl Ólason skrifar
Nick Hague, Christina Koch og Anne McClain fyrir geimgöngu í síðustu viku.
Nick Hague, Christina Koch og Anne McClain fyrir geimgöngu í síðustu viku. Vísir/NASA
Hætta þurfti við fyrstu geimgönguna þar sem tvær konur koma við sögu vegna vandræða með stærðir geimbúninga í Alþjóðlegu geimstöðinni. Geimgangan fer fram á föstudaginn en einungis ein kona mun taka þátt í henni.

Til stóð að þær Anne McClain og Christina Koch myndu fara saman í geimgöngu á föstudaginn og skipta um rafhlöður á sólarsellum geimstöðvarinnar.

Í tilkynningu frá Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, segir að geimfarinn Anne McClain, hafi farið í geimgöngu 22. mars. Þá hafi hún komist að því að ein tiltekin stærð af hluta geimbúningsins hentaði henni best og aðeins einn hluti í þeirri stærð væri til. Sá hluti búningsins passar einnig á Koch og þar sem aðeins einn hluti sé til mun Koch nota hann, samkvæmt NASA.



McClain mun því ekki taka þátt í geimgöngunni á föstudaginn því Koch mun nota búninginn sem um ræðir. Í stað McClain mun geimfarinn Nick Hague taka þátt í geimgöngunni.

Miðillinn Space.com segir ekki liggja fyrir af hverju þetta tiltekna vandamál hafi aldrei komið í ljós áður. Mannslíkaminn breytist þó nokkuð í þyngdarleysi og McClain tilkynnti á Twitter fyrr í mánuðinum að hún hefði hækkað um fimm sentímetra frá því í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×