Erlent

Borgarstjóri Chicago reiður Jussie Smollett: „Hefur þessi maður enga sómakennd?“

Sylvía Hall skrifar
Rahm Emanuel er ósáttur við ákvörðun saksóknara að fella niður ákærur gegn leikaranum Jussie Smollett.
Rahm Emanuel er ósáttur við ákvörðun saksóknara að fella niður ákærur gegn leikaranum Jussie Smollett.

Rahm Emanuel, borgarstjóri Chicago, var vægast sagt ósáttur við að ákærur gegn leikaranum Jussie Smollett væru felldar niður. Hann sagði málið vera ótrúlegan hvítþvott á réttlætinu og að leikarinn hefði svert orðspor borgarinnar.



Á blaðamannafundi í dag gerði Emanuel athugasemdir við það að Smollett héldi enn fram sakleysi sínu í málinu. Hann sagði Smollett hafa nýtt sér lög gegn hatursglæpum, sem væri ætlað að vernda minnihlutahópa gegn ofbeldi, til þess að pota sér áfram og græða á því pening. Málstaðurinn stendur Emanuel nærri þar sem hann starfaði sem starfsmannastjóri Obama á þeim tíma sem lög um hatursglæpi voru samþykkt.



„Þetta er maður sem hefur komist upp með þetta án nokkurra viðurlaga og hefur enga tilfinningu fyrir eigin ábyrgð né hversu siðferðilega rangar gjörðir hans voru,“ sagði borgarstjórinn sem var bersýnilega ósáttur við niðurstöðu málsins.



Á blaðamannafundinum sagði Eddie Johnson, lögreglustjóri í Chicago, ákvörðun saksóknarans í Cook-sýslu að fella niður ákærurnar hafa komið sér á óvart. Lögreglustjórinn og borgarstjórinn voru þó sammála um það að þrátt fyrir að vera reiðir út í ákvörðun saksóknarans væri sökin hjá Smollett.



„Hvernig dirfist hann? Hvernig dirfist hann?“ spurði borgarstjórinn ósáttur á fundinum og velti því upp hvort Smollett hefði enga sómakennd.



Greint var frá því í lok janúar að ráðist hefði verið á Smollett, sem leikur eitt af aðalhlutverkunum í þáttaröðinni Empire, í Chicago og talið að um hatursglæp væri að ræða en hann er samkynhneigður. Voru mennirnir sagðir hafa hellt klór yfir Smollett til að valda honum enn meiri skaða. Þegar rannsókn málsins var komin vel á veg greindu fjölmiðlar vestanhafs frá því að talið væri árásin hefði verið sett á svið og að Smollett hefði greitt tveimur mönnum fyrir að ráðast á hann.



„Þegar allt kemur til alls, þá er það herra Smollett sem hefur komið fram með falskar ásakanir,“ sagði borgarstjórinn.  



Upptöku af blaðamannafundinum má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×