Innlent

Fossvogsskóla lokað fram á næsta skólaár vegna myglu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Húsnæði Fossvogsskóla.
Húsnæði Fossvogsskóla. Stöð 2

Fossvogsskóla verður lokað frá og með næsta fimmtudegi vegna myglu í húsnæði skólans. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Aðalbjörg Ingadóttir, skólastjóri skólans, sendi á foreldra nemenda skólans. Ekki er ráðgert að skólinn opni aftur fyrr en að sumarfríi loknu.Í póstinum kemur fram að sýnataka í húsnæðinu hafi leitt í ljós „raka- og loftgæðavandamál“ í húsnæði skólans og að bæði nemendur og starfsfólk skólans hafi kvartað undan einkennum af þeim sökum.Eftir fund fulltrúa skóla- og frístundasviðs, umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, heilbrigðiseftirlits og skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar í dag var tekin ákvörðun um að loka skólanum eftir að skóladegi lýkur næstkomandi miðvikudag.Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir að ekki sé komið á hreint hvar skólastarf komi til með að fara fram þar til að sumarleyfi kemur í byrjun júní.„Við erum að vinna í því að finna húsnæði sem að hentar. Við náttúrulega reynum að vera eins nálægt Fossvogsskóla og hægt er. Það er verið kasta upp ýmsum hugmyndum og við erum í raun bara að kanna hvort að húsnæðið henti.“Helgi segir mikilvægt að reynt verði að halda sem stærstum hóp nemenda á sama stað til þess að lágmarka þau áhrif sem málið mun hafa á daglegt starf nemenda skólans.Hann segir að upp hafi komið sú hugmynd að plasta yfir þær skemmdir sem eru í húsinu og halda starfi skólans áfram í húsnæðinu fram á vor, en við nánari skoðun hafi komið í ljós að slíkt væri ekki ráðlegt.„Auðvitað er þetta rask fyrir börnin og fjölskyldur en menn vita að aðgerða er þörf í húsnæðinu og þá þurfa menn að hafa tíma til þess að klára málið.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.