Fótbolti

Viðari býðst að fara til Bandaríkjanna, Kasakstan og Svíþjóðar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viðar Örn hefur fengið fá tækifæri í Rostov.
Viðar Örn hefur fengið fá tækifæri í Rostov. vísir/afp
Viðar Örn Kjartansson, framherji rússneska úrvalsdeildarliðsins Rostov, fer líklega til annars félags á láni á næstunni en íslenski markahrókurinn er ansi eftirsóttur.

Viðar segir í samtali við Morgunblaðið að sex félög úr þremur löndum hafi lagt inn tilboð um að fá hann að láni en það eru lið í þremur löndum; Svíþjóð, Kasakstan og Bandaríkjunum.

New York City FC í Bandaríkjunum, Djurgården í Svíþjóð og Astana í Kasakstan eru á meðal þeirra liða sem vilja fá Viðar til sín en einnig vildu önnur lið í Rússlandi og Tyrklandi fá hann í janúar.

„Ég gat ekki farið þangað samkvæmt reglum vegna þess að það má ekki spila með þremur liðum á sama tímabilinu. Ég get hinsvegar farið til þessara þriggja landa þar sem nýtt tímabil í þeim er að hefjast eða er hafið á árinu 2019,“ segir Viðar Örn við Morgunblaðið.

Viðar Örn hefur spilað með Rostov síðan síðasta haust en hann hefur fengið fá tækifæri með liðinu. Hann kom til Rostov frá Maccabi Tel Aviv en áður hefur hann spilað í Kína, Svíþjóð og í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×