Erlent

Tveir handteknir vegna morðs á brasilískri stjórnmálakonu

Kjartan Kjartansson skrifar
Ronnie Lessa (t.v.) og Elcio Viera de Queiroz (t.h.) eru sagðir fyrrverandi herlögreglumenn.
Ronnie Lessa (t.v.) og Elcio Viera de Queiroz (t.h.) eru sagðir fyrrverandi herlögreglumenn. Vísir/EPA
Lögreglan í Río de Janeiro hefur handtekið tvo fyrrverandi lögreglumenn vegna morðsins á borgarfulltrúanum Marielle Franco í fyrra. Franco hafði verið afar gagnrýnin á alríkislögreglumenn væru sendir inn í fátækrahverfi borgarinnar.

Mennirnir tveir eru sagðir hafa verið herlögreglumenn. Annar þeirra er grunaður um að hafa skotið Franco til bana en hinn um að hafa myrt ökumann hennar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Franco var skotin fjórum sínum í höfuðið þegar hún kom af samkomu um valdeflingu blökkukvenna í miðborg Ríó í mars í fyrra. Vitni sáu bíl ekið upp að hliðina að bílnum sem hún var farþegi í. Ökumaður hennar var skotinn þremur skotum. Blaðafulltrúi Franco særðist einnig í tilræðinu.

Morðið á Franco vakti mikla reiði í Brasilíu og varð kveikjan að fjöldamótmælum í Ríó.

Franco ólst sjálf upp í fátækrahverfum Ríó og sem borgarfulltrúi gagnrýndi hún að öryggissveitir alríkisstjórnar Brasilíu væru sendar inn í hverfin. Daginn áður en hún var myrt tísti hún gagnrýni sinni á að herlögregla hefði drepið 23 ára gamlan mann í einu fátækrahverfa borgarinnar.

Rannsakendur segja að morðið á Franco hafi verið vandlega skipulagt og framkvæmt af óvenjumikilli nákvæmni. Grunur hefur því leikið á að morðingjarnir hafi verið þrautþjálfaðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×