Innlent

Ekki hægt að geyma ráðherrastóla

Jakob Bjarnar skrifar
Sigríður er farin. Ekkert tímabundið við það að sögn prófessorsins. Ekki í sjálfu sér. Ekki stjórnsýslulega. Komi hún aftur er það sjálfstæð ákvörðun.
Sigríður er farin. Ekkert tímabundið við það að sögn prófessorsins. Ekki í sjálfu sér. Ekki stjórnsýslulega. Komi hún aftur er það sjálfstæð ákvörðun. visir/vilhelm
Prófessor Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir að það sé ekkert til sem heiti að stíga til hliðar. Annað hvort eru menn hættir eða ekki.

Sigríður Á. Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra, tilkynnti á blaðamannafundi fyrr í dag að hún ætlaði að stíga til hliðar, í nokkrar vikur, meðan verið væri að leiða til lykta dóm MDE. Sigríður lýsti því yfir að hún gerði þetta til að skapa frið um dómstóla en jafnframt að hún væri algerlega ósammála dómnum, hann væri einskonar aðför að fullveldi lands og þjóðar.

Sjálfstæð ákvörðun komi hún aftur

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna og Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins, tveir af þremur oddvitum ríkisstjórnarinnar, hafa lýst því yfir að þau styðji ákvörðun Sigríðar.

Eiríkur segir að ekkert sé til stjórnskipulega að geyma ráðherrastóla.
Það sem hins vegar stendur í ýmsum er þetta með að „stíga til hliðar tímabundið“. Eiríkur Bergmann segir það tæknilega ekki til.

„Stjórnskipunarlega er hún bara farin frá sem ráðherra. Það er ekkert hægt að geyma ráðherrastóla. Það er bara sjálfstæð ákvörðun að hún komi aftur sem þarf að undirrita með forsetabréfi,“ segir Eiríkur.

Sigríður er farin

Ekki liggur fyrir hver mun taka við dómsmálaráðuneytinu, hvort kallaður verði til ráðherra úr þingliðinu til að taka að sér ráðherradóminn eða að annar ráðherra taki yfir verkefni Sigríðar. Þetta mun liggja fyrir innan tíðar.

Þó svo að það geti verið pólitískt samkomulag um að hún komi aftur, þá er það önnur saga, að sögn Eiríks.

„Það getur verið pólitískt samkomulag milli flokka um það en lögformlega fer hún út úr ríkisstjórninni eins og allir aðrir sem fara úr ríkisstjórn. Það er ekki til neitt sem heitir að víkja tímabundið. Og einhver annar sem fer yfir málaflokkinn um tíma, nema þeir ætla að gera þetta þannig og þá er hún ekkert farin frá.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×