Innlent

Katrín lýsti yfir áhyggjum sínum við Sigríði í gær

Birgir Olgeirsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í þinghúsinu eftir tilkynningu Sigríðar Andersen.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í þinghúsinu eftir tilkynningu Sigríðar Andersen. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við Sigríði Andersen dómsmálaráðherra í gær og lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðu mála tengdum Landsrétti. Þetta sagði Katrín þegar hún ræddi við fjölmiða í Alþingishúsinu rétt í þessu.

Sigríður Andersen lýsti því yfir á blaðamannafundi í dómsmálaráðuneytinu rétt fyrir klukkan þrjú í dag að hún hefði ákveðið að stíga til hliðar sem ráðherra svo persóna hennar komi ekki til með að trufla þær ákvarðanir sem þarf að taka vegna þeirrar óvissu sem ríkir um Landsrétt vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu.

Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að skipan dómara í Landsrétt hefði brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Sigríður sagði mikilvægt að skjóta málinu til Yfirréttar í Strassborg til að fá endanlega úr málinu skorið því það gæti haft mikið fordæmi á önnur ríki Evrópu.

Katrín sagði að dómnum yrði áfrýjað til yfirréttarins en hún sagði styðja ákvörðun Sigríðar að stíga til hliðar til að tryggja vinnufrið um þetta mikilvæga mál og axla þannig ábyrgð.

Sagði Katrín að það lægi ekki fyrir hversu langan tíma tekur að leiða málið til lyktar. Spurð hvort að Sigríður ætti afturkvæmt í ríkisstjórn sagði Katrín að ekki væri tímabært að svara því að svo stöddu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×