Erlent

Þingið fellir líklega neyðarástand Trump úr gildi

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Donald Trump hlýtur kynningu frá landamæraeftirliti Bandaríkjanna um eiturlyfjasmygl á landamærunum.
Donald Trump hlýtur kynningu frá landamæraeftirliti Bandaríkjanna um eiturlyfjasmygl á landamærunum. Getty/Al Drago

Bandaríkjaþing mun að öllum líkindum fella úr gildi neyðarástand sem Donald Trump forseti lýsti yfir á landamærunum að Mexíkó. Verði tillagan samþykkt er líklegt að Trump beiti neitunarvaldi í fyrsta skipti frá því hann tók við embætti. 

Fulltrúadeildin, þar sem Demókratar eru með meirihluta, hafa þegar samþykkt að fella úr gildi neyðarástandið. Atkvæði verða greidd um tillöguna í öldungadeildinni síðar í dag. Fimm öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins hafa lýst því yfir að þeir ætli að greiða atkvæði með ályktuninni. Forsetinn hefur hótað því að beita neitunarvaldi sínu verði ályktunin samþykkt.

Trump lýsti yfir neyðarástandi á landamærunum 15. febrúar eftir að Bandaríkjaþing neitaði honum fjármagni í landamæramúrinn sem hann vill reisa. Neyðarástandinu var ætlað að gera forsetanum kleift að ráðstafa fjármunum í múrinn án samþykkis þingsins. 

Þingið getur ógilt neitunarvald forseta en til þess þarf tvo þriðju hluta atkvæða í báðum deildum þingsins. Afar ólíklegt er að slíkur meirihluti sé til staðar í öldungadeildinni þar sem Repúblikanar eru með meirihluta.

Standi neyðarástandið áfram mun Trump geta notað fjármagn sem ætlað er hernaðarmálum og tekið þaðan allt að 8 milljarða Bandaríkjadala. Nokkur ríki Bandaríkjanna hafa kært neyðaryfirlýsinguna til dómstóla sem eiga enn eftir að taka afstöðu til þess hvort það samræmist stjórnarskrá Bandaríkjanna. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.