Enski boltinn

Margir héldu að hann væri orðinn galinn en það er annað hljóð í fólki í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diogo Jota.
Diogo Jota. Getty/Sam Bagnall

Framherji Úlfanna er ein af óvæntu stjörnum ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili en Diogo Jota á mikinn þátt í góðu gengi nýliðanna í vetur.

Diogo Jota tók þá stóru ákvörðun að fara til Wolves þrátt fyrir að margir hafi efast um það val hans að fara til b-deildarliðs á sínum tíma. Þar á meðal voru fjölskyldumeðlimir.

Jota kom fyrst á láni til Wolves frá Atletico Madrid í júlí 2017 en gekk endanlega frá fullum félagsskiptum í janúar 2018.

„Margir í Portúgal gagnrýndu mig,“ sagði hinn 22 ára gamli Diogo Jota. Hann skoraði 17 mörk í ensku b-deildinni í fyrra og hjálpaði Wolves að vinna sér sæti í ensku úrvalsdeildinni.„Þessar efasemdir voru að koma alls staðar að, frá almenningi og frá fjölmiðlamönnum en líka frá fjölskyldumeðlimum,“ sagði Jota.

„Fjölskyldan mín var kannski ekki að gagnrýna mig heldur frekar að spyrja mig af hverju ég væri að fara þangað,“ sagði Jota.

„Ég hafði alltaf stuðning föður míns en frændi minn reyndi að segja við mig: Af hverju ertu að gera þetta? Ég svaraði að þetta væri hluti af boltanum,“ sagði Jota.

Wolves er nú í sjöunda sæti í ensku úrvalsdeildinni og er komið í átta liða úrslit enska bikarsins þar sem liðið mætir Manchester United um helgina.Joaquin, faðir hans, mun mæta á leikinn á móti Manchester United um helgina og það mun umræddur frændi hans, Ricardo, gera líka.

Diogo Jota hefur verið í miklu stuði að undanförnu, hefur skorað 6 mörk í síðustu 13 leikjum og var með þrennu á móti Leicester í janúar.

„Það voru allir að segja að ég væri að fara úr Meistaradeildarklúbbi í neðri deildar lið í öðru landi. Þau spurðu hvort ég væri orðin galinn,“ segir Jota.

„Ég svaraði: Nei, ég hef trú á þessu verkefni og ef allt gengur vel eins og ég býst við þá hef ég ástæðuna á næsta tímabili,“ sagði Jota.

„Sem betur fer þá gekk allt vel og nú erum við hér og allir skilja þetta núna,“ sagði Diogo Jota.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.