Fótbolti

Arsenal mætir Napoli og getur mætt Chelsea í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Ramsey hjá Arsenal og N'Golo Kanté hjá Chelsea gætu mæst í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í ár.
Aaron Ramsey hjá Arsenal og N'Golo Kanté hjá Chelsea gætu mæst í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í ár. Vísir/Getty
Stórleikur átta liða úrslita Evrópudeildarinnar verður viðureign Arsenal og Napoli en þau drógust saman í dag.

Chelsea var aðeins heppnara með mótherja því liðið mætir tékkneska liðinu Slavia Prag í átta liða úrslitunum.

Spænsku liðin Villarreal og Valencia drógust síðan saman í einum leiknum.

Það var einnig dregið í undanúrslitin og eftir þann drátt eiga ensku liðin, Chelsea og Arsenal, möguleika á því að mætast í úrslitaleiknum.

Vinni Chelsea sigur á Slavia Prag í átta liða úrslitunum mætir liðið sigurvegaranum úr viðureign Benfica og Eintracht Frankfurt.

Takist Arsenal að vinna Napoli þá mætir liðið annaðhvort Villarreal eða Valencia í undanúrslitunum.

Drátturinn fór fram í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss og í beinu framhaldi að drættinum í Meistaradeildinni.

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, óskaði þess að mæta sínum gömlu lærisveinum í Napoli í úrslitaleiknum og það er enn möguleiki takist báðum liðunum að vinna einvígi sín í átta liða úrslitum og undanúrslitum.

Leikirnir í átta liða úrslitunum fara fram 11. apríl og 18. apríl.

Undanúrslitaleikirnir fara fram 2. og 9. maí og úrslitaleikurinn verður síðan spilaður á Ólympíuleikvanginum í Bakú 29. maí.



Átta liða úrslit Evrópudeildarinnar líta svona út:

Napoli - Arsenal

Villarreal - Valencia

Benfica - Eintracht Frankfurt

Slavia Prag - Chelsea

Þessi lið mætast síðan í undanúrslitunum:

Napoli/Arsenal - Villarreal/Valencia

Benfica/Eintracht Frankfurt - Slavia Prag/Chelsea




Fleiri fréttir

Sjá meira


×