Fótbolti

Arsenal mætir Napoli og getur mætt Chelsea í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Ramsey hjá Arsenal og N'Golo Kanté hjá Chelsea gætu mæst í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í ár.
Aaron Ramsey hjá Arsenal og N'Golo Kanté hjá Chelsea gætu mæst í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í ár. Vísir/Getty

Stórleikur átta liða úrslita Evrópudeildarinnar verður viðureign Arsenal og Napoli en þau drógust saman í dag.

Chelsea var aðeins heppnara með mótherja því liðið mætir tékkneska liðinu Slavia Prag í átta liða úrslitunum.

Spænsku liðin Villarreal og Valencia drógust síðan saman í einum leiknum.

Það var einnig dregið í undanúrslitin og eftir þann drátt eiga ensku liðin, Chelsea og Arsenal, möguleika á því að mætast í úrslitaleiknum.

Vinni Chelsea sigur á Slavia Prag í átta liða úrslitunum mætir liðið sigurvegaranum úr viðureign Benfica og Eintracht Frankfurt.

Takist Arsenal að vinna Napoli þá mætir liðið annaðhvort Villarreal eða Valencia í undanúrslitunum.

Drátturinn fór fram í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss og í beinu framhaldi að drættinum í Meistaradeildinni.

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, óskaði þess að mæta sínum gömlu lærisveinum í Napoli í úrslitaleiknum og það er enn möguleiki takist báðum liðunum að vinna einvígi sín í átta liða úrslitum og undanúrslitum.

Leikirnir í átta liða úrslitunum fara fram 11. apríl og 18. apríl.

Undanúrslitaleikirnir fara fram 2. og 9. maí og úrslitaleikurinn verður síðan spilaður á Ólympíuleikvanginum í Bakú 29. maí.


Átta liða úrslit Evrópudeildarinnar líta svona út:
Napoli - Arsenal
Villarreal - Valencia
Benfica - Eintracht Frankfurt
Slavia Prag - Chelsea

Þessi lið mætast síðan í undanúrslitunum:
Napoli/Arsenal - Villarreal/Valencia
Benfica/Eintracht Frankfurt - Slavia Prag/ChelseaAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.