Innlent

Ræddi öryggis- og varnarmál við utanríkisráðherra Þýskalands

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson og Heiko Maas á fundi þeirra í dag
Guðlaugur Þór Þórðarson og Heiko Maas á fundi þeirra í dag Utanríkisráðuneytið

Öryggis- og varnarmál, málefni norðurslóða og alþjóðlegt viðskiptaumhverfi voru meðal helstu umræðuefna á tvíhliða fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, og Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sem fram fór í Berlín fyrr í dag.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir fyrirhugaðan utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn verður í Washington 4. apríl í tilefni af 70 ára afmæli bandalagsins. Enn fremur greindi Guðlaugur Þór frá undirbúningi fyrir formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem hefst í maí, en Þýskaland er áheyrnaraðili að ráðinu og hafa þarlendir ráðamenn sýnt málefnum norðurslóða athygli í auknum mæli.

Samskiptin til austurs og vesturs voru jafnframt til umfjöllunar auk þess sem alþjóðleg viðskipti og málefni Heimsviðskiptastofnunarinnar voru fyrirferðamikil á fundinum. Evrópumálin og Brexit voru rædd og þá fór Guðlaugur Þór yfir stöðu og mikilvægi EES samningsins.

Málefni Sameinuðu þjóðanna voru sömuleiðis til umræðu, en Þýskaland tók nýverið sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Einnig kom mannréttindaráðið til umfjöllunar og frumkvæði Íslands í að leiða hóp 36 ríkja, þar með talið Þýskaland, í gagnrýni á stöðu mannréttinda í Sádi-Arabíu. Þá gerði Guðlaugur Þór grein fyrir helstu áherslum Íslands í norrænu samstarfi, sem Ísland er í formennsku fyrir á árinu.

„Ísland mætir ávallt hlýhug og áhuga í Þýskalandi og mikilvægt er að rækta tengsl þessara vinaþjóða. Við deilum sömu gildum og sýn á alþjóðavettvangi, meðal annars innan Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Þýskaland er enn fremur í þungamiðju allrar þróunar í Evrópu. Tvíhliða samskipti Íslands og Þýskalands standa jafnframt í miklum blóma, meðal annars á sviðum viðskipta, fjárfestinga og ferðamennsku, en einnig í menningarmálum og íþróttastarfi. Það er margt og bjart fram undan í samskiptum ríkjanna,“ er haft eftir Guðlaugi Þór á vef stjórnarráðsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.