Innlent

Kalla eftir fjölgun dómara við Landsrétt

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fjórir dómarar Landsréttar eru frá störfum við dómstólinn um óákveðinn tíma.
Fjórir dómarar Landsréttar eru frá störfum við dómstólinn um óákveðinn tíma.

Dómstólasýslan hefur farið þess á leit við dómsmálaráðuneytið að ráðuneytið hlutist til um lagabreytingu sem myndi heimila fjölgun dómara við Landsrétt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá dómstólasýslunni.

Fjórir Landsréttardómarar munu ekki starfa við réttinn í óákveðinn tíma eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið löglega staðið að skipan dómara við Landsrétt.

Í tilkynningunni kemur fram að formaður stjórnar dómstólasýslunnar og framkvæmdastjóri hennar hafi átt í ítarlegum viðræðum við fulltrúa ráðuneytisins og nokkra Landsréttardómara. Auk þess hafi verið haft samráð við réttarfarsnefnd. Eftir viðræðurnar hafi verið tekin ákvörðun um að fara þess á leit við dómsmálaráðuneytið að lögum verið breytt svo mögulegt verði að fjölga dómurum Landsréttar.

Dómstólasýslan telur fjölgunina nauðsynlega þar sem að þeir fjórir dómarar sem skipaðir voru af Sigríði Á Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, í stað þeirra fjögurra sem hæfnisnefnd mat hæfasta, geti að óbreyttu ekki tekið þátt í störfum réttarins. Álag á Landsrétt komi því til með að aukast til muna með tilheyrandi drætti mála, verði dómurum ekki fjölgað.

Þá leggur dómstólasýslan áherslu á að áður en ákvörðun um hvort skjóta eigi málinu til Yfirdómstóls Mannréttindadómstólsins verði áhrif þess könnuð. Mikilvægt sé að hafa í huga þá óvissu sem umkringt hefur Landsrétt frá því hann tók til starfa í upphafi síðasta árs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×