Enski boltinn

„Þetta var stórt skref aftur á bak“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær vísir/getty
Manchester United datt út úr ensku bikarkeppninni í gærkvöldi eftir tap fyrir Wolves í 8-liða úrslitunum.

Frammistaðan hjá United var alls ekki góð og átti liðið aðeins tvö skot á markið í leiknum.

„Við byrjuðum of hægt og spiluðum upp í hendurnar á þeim. Við vorum ekki nógu klárir á boltanum og of hægir, svo þetta var mjög svekkjandi,“ sagði Ole Gunnar Solskjær eftir leikinn.

„Mér fannst við ekki sýna nógu mikil gæði í síðasta þriðjungnum, náðum ekki að spila nógu mikið saman. Við vorum meira með boltann í fyrri hálfleik en það hjálpar þér ekki ef þú gefur boltann frá þér og þeir komast í skyndisókn.“

„Þetta var stórt skref aftur á bak, sérstaklega þegar horft er í gæðin á boltatímanum og sendingunum.“

Eftir frábæra byrjun hjá Norðmanninum eru núna komnir tveir tapleikir í röð.

„Sumir leikmannanna fara núna í landsliðsverkefni og þeir munu njóta þess að fá smá pásu. Við verðum að halda áfram, eftir frábært gengi þá höfum við tapað tveimur. Á móti Arsenal gátum við bara ekki skorað og í dag vorum við lélegir.“

„Þetta var lélegasta frammistaða okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×