Fótbolti

Hamren gerir upp haustið: Margir sögðu mér að þetta væri ómögulegt starf

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Peralada skrifar
Erik Hamren hefur enn sömu trú á því að Ísland geti áfram náð góðum árangri á alþjóðavettvangi knattspyrnunnar, rétt eins og hann gerði þegar hann tók við starfi landsliðsþjálfara í haust.

Ísland hefur á föstudag leik í undankeppni EM 2020 og freistar þess þá að komast inn á sitt þriðja stórmót í röð. „Mörg stærri lönd en Ísland hafa átt erfitt með að ná því,“ bendir Hamren á í viðtali við íþróttadeild sem má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Hann segir að það hafi ekki verið að erfitt að taka við þjálfun íslenska liðsins þegar hann gerði það, þrátt fyrir að kringumstæður hafi vissulega verið krefjandi.

„Margir af þeim sem ég ræddi við sögðu að þetta væri ómögulegt starf,“ sagði hann. „En mínar hugsanir eru enn í dag þær sömu og þá - ef við getum spilað með okkar bestu leikmenn, allir heilir heilsu og allir að spila með sínum félagsliðum, þá trúi ég því að við getum áfram náð árangri. Þess vegna sagði ég já.“

Hann segir í viðtalinu frá því að haustið hafi verið erfitt. Meiðsli hafi sett strik í reikninginn en Ísland tapaði öllum sínum fjórum leikjum í Þjóðadeild UEFA og gerði fjögur jafntefli í jafn mörgum vináttulandsleikjum - einum þeirra gegn heimsmeisturum Frakklands.

„En nú byrjum við upp á nýtt. Við þurfum að ná í úrslit. Um þetta snýst þetta. Ef að draumurinn okkar og metnaður snýr að því að komast á EM þá þurfum við að ná í góð úrslit,“ sagði hann.


Tengdar fréttir

Svona var fundur Hamrén í Laugardalnum

Ísland ætlar að freista þess að komast á þriðja stórmótið í röð og vegferðin á EM 2020 hefst með tilkynningu á landsliðshópi í dag fyrir fyrstu leikina í undankeppni mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×