Fótbolti

Freyr: Við höfum trú á því að við getum unnið riðilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Íslenska landsliðið fagnar marki. Getty/Jean Catuffe

Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari Erik Hamrén hjá íslenska landsliðinu, fór yfir undankeppni EM 2020 á blaðamannafundi.

„Þetta er nýtt fyrirkomulag sem hefur bæði kosti og galla. Þetta er spilað á mjög stuttum tíma eða frá 22. mars til 17. nóvember,“ sagði Freyr.

„Þetta eru aðeins átta mánuðir og þá vitum við okkar örlög. Þetta er töluvert öðruvísi en hefur verið. Það er mikilvægt að halda öllum heilum því ef menn meiðast þá er hætt við því að leikmenn missi af stórum hluta undankeppninnar,“ sagði Freyr.

„Þetta er gríðarlega jafn riðill. Pressan er á Frökkum að vinna riðilinn, að sjálfsögðu, en við teljum að riðillinn verði jafn og spennandi. Þetta mun ráðast í nóvember, síðustu leikjunum, hvaða lið munu komast í lokakeppnina. Smáatriðin munu skipta máli - hvert einasta mark, stig og líka spjöld. Lítil atriði inni í leikjunum skipta máli, þar þurfum við að vera á tánum,“ sagði Freyr.

„Markmiðið er skýrt. Við ætlum á EM. Við erum einhuga í því,“ sagði Freyr en bætti við:

„En þetta verður snúið, við vitum það. Við erum ekki að horfa á að ná þessu öðru sæti sérstaklega, við ætlum að leyfa þessum riðli að spilast og við höfum trú á því að við getum unnið riðilinn. En Frakkland er klárlega það lið sem á að vinna riðilinn,“ sagði Freyr.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.