Erlent

Rússar segjast tilbúnir í viðræður um Venesúela

Kjartan Kjartansson skrifar
Lavrov gagnrýndi stefnu Bandaríkjastjórnar gagnvart Venesúela í símtali við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Lavrov gagnrýndi stefnu Bandaríkjastjórnar gagnvart Venesúela í símtali við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Utanríkisráðherra Rússlands segir stjórnvöld í Kreml tilbúin í tvíhliða viðræður við Bandaríkjastjórn um ástandið í Venesúela. Hann ræddi við bandarískan starfsbróður sinn í síma í gærkvöldi og lagði áherslu á að virða þyrfti rétt venesúelsku þjóðarinnar til að ákveða framtíð sína.

Ríkin tvö hafa verið á öndverðum meiði í afstöðu sinni til atburða í Venesúela. Bandaríkjastjórn hefur viðurkennt Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem handhafa forsetavalds en Rússar styðja Nicolás Maduro, forseta landsins.

Reuters-fréttastofan segir að Sergei Lavrov, rússneski utanríkisráðherrann, hafi fordæmt hótanir Bandaríkjastjórnar í garð „lögmætrar forystu“ Venesúela í símtali þeirra Mike Pompeo í gær. Sagði hann að fara yrði eftir grunngildum stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna hvað varðaði sjálfsákvörðunarrétt Venesúelabúa.

Bandaríkjastjórn hefur lagt viðskiptaþvinganir á sex liðsmenn öryggissveita Maduro og afturkallað landvistarleyfi tuga samstarfsmanna Maduro og fjölskyldna þeirra.


Tengdar fréttir

Guaido segir hermenn snúa baki við Maduro

Juan Guaido, starfandi forseti Venesúela, segir að 600 hermenn hafi snúið baki við Nicolas Maduro, forseta Venesúela, á síðustu dögum. Bandaríkin setja nýjar þvinganir á sex háttsetta embættismenn í Maduro-stjórninni.

Þrýstingur á Maduro eykst

Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, kallaði eftir því í gær að alþjóðasamfélagið grípi til allra hugsanlegra aðgerða til að koma sitjandi forseta landsins, Nicolas Maduro, frá völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×