Enski boltinn

Gerir Manchester United Sancho að fyrsta enska 100 milljóna punda leikmanninum?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dortmund gaf Sancho sénsinn og hann hefur heldur betur nýtt hann.
Dortmund gaf Sancho sénsinn og hann hefur heldur betur nýtt hann. vísir/getty
Manchester United er tilbúið að  keppa við PSG um ungstirnið Jadon Sancho sem hefur farið á kostum með Borussia Dortmund það sem af er leiktíðinni.

Sancho gæti orðið fyrsti enski knattspyrnumaðurinn sem mun kosta meira en hundrað milljónir punda en hann er ofarlega á óskalista PSG og Manchester United.

Þessi sömu lið mætast einmitt í Meistaradeildinni annað kvöld er síðari leikur liðanna í 16-liða úrslitunum fer fram. PSG er í góðri stöðu eftir að hafa unnið fyrri leik liðanna á Old Trafford 2-0.







Sancho sem er einungis átján ára gamall hefur leikið á alls oddi á leiktíðinni. Í þeim 24 leikjum sem hann hefur komið við sögu í þýsku úrvalsdeildinni hefur hann skorað átta mörk og gefið tíu stoðsendingar.

Dýrasti enski leikmaðurinn sem keyptur hefur verið er Kyle Walker en hann var keyptur frá Tottenham til Manchester City á 53 milljónir punda. Dortmund er sagt vilja yfir hundrað milljónir punda vilji félögin kaupa enska landsliðsmanninn frá Þýskalandi.

Sancho gekk í raðir Dortmund sumarið 2017 eftir að hafa ekki fengið tækifæri hjá Manchester City þar sem hann hafði leikið í tvö ár en hann er uppalinn hjá Watford. Sancho hefur leikið þrjá landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×