Erlent

Ákærður í Noregi fyrir kynferðisbrot gegn 263 börnum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn kom sér m.a. í samband við drengina í gegnum samskiptaforritið Skype.
Maðurinn kom sér m.a. í samband við drengina í gegnum samskiptaforritið Skype. Getty/
Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið ákærður í Noregi fyrir að hafa brotið gegn 263 börnum í gegnum netið. Um er að ræða annað mál sinnar tegundar sem kemur upp í Akershusfylki í suðausturhluta Noregs á skömmum tíma.

Sjá einnig: Umfangsmesta kynferðisbrotamál Noregs: Braut gegn þrjú hundruð drengjum á Snapchat

Norska ríkissjónvarpið NRK greinir frá því að þolendur mannsins séu börn á aldrinum níu til sextán ára, flest drengir. Meirihluti barnanna, 220 talsins, er frá Noregi en önnur frá öðrum Norðurlöndum. Maðurinn kom sér í samband við börnin í gegnum samskiptaforritin Skype og Omegle.

NRK hefur eftir Anette Holt Tønsberg, lögmanni sem fer með málið, að maðurinn hafi í flestum tilvikum þóst vera stúlka á aldur við drengina. Hann hafi þannig öðlast traust þeirra og fengið þá til kynferðislegra athafna.

„Stine“ fékk sendar nektarmyndir

Maðurinn hefur verið í haldi lögreglu síðan í janúar árið 2018. Lögregla komst á sporið síðla árs 2017 eftir að móðir eins drengsins heyrði á myndsamtal tíu ára sonar síns og „Stine“, norskrar unglingsstúlku sem reyndist vera umræddur karlmaður. Stine hafði fengið drenginn til að senda sér nektarmyndir og ræddi ítrekað við hann á kynferðislegum nótum.

Lögmaður mannsins, Gard A. Lier, segir í samtali við VG að skjólstæðingi sínum sé létt yfir því að hafa verið handtekinn, hann hafi lengi viljað losna undan þessari „fíkn sinni“.

Málið hefur verið borið saman við annað mál sem fjallað var um í fyrra. Þar var 26 ára norskur karlmaður ákærður fyrir kynferðisbrot gegn yfir þrjú hundruð drengjum í gegnum samskiptaforritið Snapchat og spjallþræði á netinu. Sá þóttist einnig vera kvenkyns jafnaldri drengjanna og fékk þá þannig til kynferðislega athafna. Málin eru þó ekki sögð tengjast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×