Enski boltinn

Virgil van Dijk kemur í veg fyrir að Solskjær geti flutt heim til sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. Getty/Jordan Mansfield
Enskir fjölmiðlar segja frá því að besti varnarmaður ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili standi líka í vegi fyrir knattspyrnustjóra Manchester United.

Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær varð óvænt knattspyrnustjóri Manchester United í desember en nú lítur út fyrir að hann verði framtíðarstjórinn á Old Trafford.

Solskjær þarf því að fara finna sér framtíðarhúsnæði á svæðinu því hingað til hefur hann eytt tíma sínum á hóteli eins og forveri hans Jose Mourinho gerði allan tímann sinn sem knattspyrnustjóri Manchester United.





Norðmaðurinn er farinn að leita sér að húsnæði sem yrði þá hans annað á svæðinu. Enskir fjölmiðlar segja frá óvenjulegum húsnæðisvandræðum Ole Gunnars.

Ole Gunnar Solskjær spilaði á sínum tíma í ellefu ár með Manchester United og starfaði einnig hjá félaginu í þrjú ár eftir að knattspyrnuferlinum lauk. Hann bjó því í Manchester eða nágrenni í fjórtán ár eða frá 1996 til 2011.

Það kemur því engum á óvart að Solkjær hafi eignast hús á Manchester-svæðinu og það sem meira er að hann á það húsnæði enn. Vandamálið er að hann getur ekki flutt í sitt eigið hús þökk sé leikmanni úr liði erkifjendanna.

Ole Gunnar Solskjær flutti heim til Molde eftir tíma sinn hjá Manchester United en seldi ekki húsið í Cheshire heldur leigði það út. Solskjær reyndi að selja húsið en fann engan kaupanda og því var ákveðið að setja það á leigumarkaðinn.  





Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool, er af þeim sökum sá sem kemur í veg fyrir að Solskjær geti flutt aftur heim til sín. Hann leigir húsið hjá Norðmanninum.

Þegar Liverpool keypti Van Dijk frá Southampton þá flutti hollenski miðvörðurinn inn í húsið hans Ole Gunnar Solskjær. Húsið er í Cheshire, suður af bæði Liverpool og Manchester en það er ekki langt á milli þessara borga.

Jose Morinho var gestur Lowry lúxushótelsins í 127 vikur en Solskjær hefur nú verið þar í níu vikur. Nú er Solskjær kominn með nóg af hótellífinu.

Það er reyndar ekki óalgengt að knattspyrnumenn eða stjórar leigi hús hjá hvorum öðrum. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, leigir þannig húsið hans Brendan Rodgers en Rodgers tók nýverið við liði Leicester City.

Klopp grínaðist með það þegar hann varð spurður út í ráðningu Brendan Rodgers að þetta væri í lagi svo lengi sem hann kæmi ekki til Everton og þyrfti af þeim sökum að reka hann út úr húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×