Enski boltinn

Gylfi fellur niður listann en er samt einn af þeim bestu í deildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er búinn að spila vel í vetur.
Gylfi Þór Sigurðsson er búinn að spila vel í vetur. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands og leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, fellur niður í 28. sæti leikmannastyrkleikalista Sky Sports þrátt fyrir fína frammistöðu á móti Liverpool á sunnudaginn.

Styrkleikalisti (e. Power Ranking) Sky Sports byggir á 34 tölfræðiþáttum en nýjasti listinn er alltaf byggður á frammistöðu leikmanna í síðustu fimm umferðum þar sem nýjasta umferðin telur mest og svo koll af kolli.

Gylfi Þór er með 4,882 stig á nýjasta listanum og er með jafnmörg stig og Ashley Young, bakvörður Manchester United, en leikmenn á borð við James Maddison hjá Leicester, Luke Shaw hjá Manchester United og Ilkay Gündogan hjá Manchester City eru allir á eftir Gylfa.

Virgil van Dijk er bestur í deildinni.vísir/getty
Virgil van Dijk er á toppnum yfir síðustu fimm umferðir og þykir því besti leikmaður deildarinnar í dag en hann er með 9,590 stig, aðeins meira en Romelu Lukaku hjá Manchester United sem er með 9,480 stig. Troy Deeney, framherji Watford, er svo langt á eftir þeim í þriðja sæti með 7,289 stig.

Þrátt fyrir að vera á niðurleið á heildarlistanum yfir síðustu fimm umferðir er Hafnfirðingurinn efstur allra leikmanna Everton og þegar litið er á heildarstigasöfnun leikmanna deildarinnar í vetur er Gylfi í 13. sæti með 43,821 stig.

Gylfi Þór má því kalla 13. besta leikmann ensku úrvalsdeildarinnar í vetur en hann skýtur þar leikmönnum eins og Heung-Min Son hjá Tottenham (16. sæti), David Silva hjá Manchester City (17. sæti) og Christian Eriksen hjá Tottenham (19. sæti) ref fyrir rass.

Næsti Everton-maður á heildarlistanum er bakvörðurinn Lucas Digne en hann er í 23. sæti með 43,254 stig eða ríflega fjögur þúsund stigum minna en Gylfi Þór Sigurðsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×