Enski boltinn

Ráð Mourinho til Klopp: Segðu leikmönnum Liverpool sannleikann en ekki vera að selja þeim drauma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Jürgen Klopp.
Jose Mourinho og Jürgen Klopp. Getty/Laurence Griffiths
Jose Mourinho var í miklu stuði í sjónvarpsútsendingu beIN Sports um helgina þegar hann tjáði sig um allt það helsta í fótboltaheiminum í dag. Auðvitað talaði hann líka um Liverpool og knattspyrnustjórann Jürgen Klopp.

Mourinho viðurkenndi að hann þekkti Jürgen Klopp minna en aðra stjóra toppliðanna í Englandi en að hann sjái Þjóðverjann fyrir sér sem jákvæðan mann.

Mourinho talaði um að titilbaráttan væri ekki búin fyrir Liverpool liðið þrátt fyrir að Manchester City sé komið á toppinn og hann vildi líka gefa Jürgen Klopp smá ráð eins og sjá má hér fyrir neðan.



„Ég held að hann styðji vel við bakið á sínum leikmönnum og hann muni reyna fá þá til að trúa því að titilbaráttan sé enn opin. Það er líka rétt. Manchester City er ekki orðið enskur meistari því þetta er allt opið ennþá,“ sagði Jose Mourinho.

„Hann þarf að undirbúa sína leikmenn og ég tel að besta leiðin til að undirbúa leikmenn sé að segja mönnum sannleikann. Ekki reyna að selja mönnum einhverja drauma. Hann ætti að viðurkenna fyrir sínum mönnum að liðið sé ekki í sínum besta gír þessa dagana,“ sagði Mourinho.

Hann bendir Klopp líka að átta sig á því að hann er að keppa í enska boltanum og þar þurfi menn að hafa mikið fyrir hverju stigi. Það er ekkert stig gefið og því á mikið eftir að gerast í síðustu níu umferðunum.

Mourinho er á því að þetta sé flott tímabil í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta er gott tímabil, tvö lið að berjast um titilinn og fjögur lið að berjast um tvö sæti í Meistaradeildinni. Það eru síðan fullt að liðum að reyna að forðast fallið. Þetta er mjög áhugavert mót,“ sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×