Enski boltinn

Franskur framherji sem skorar ekki mikið gæti orðið samherji Gylfa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Er Jean-Kévin Augustin á leiðinni á Goodison?
Er Jean-Kévin Augustin á leiðinni á Goodison? vísir/getty
Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton hefur sárvantað alvöru framherja í vetur til þess að skora mörkin en Gylfi og Richarlison hafa mest megnis séð um að koma boltanum í netið.

Ítalska fréttasíðan Calciomercato greinir frá því að Everton sé mögulega búið að finna sinn mann en bláliðar Liverpool-borgar eru nú orðaðir við franska framherjann Jean-Kévin Augustin, leikmann RB Leipzig í Þýskalandi.

Ítalska síðan segir að Augustin sé efstur á blaði hjá Everton en hann verður ekki ódýr þar sem að hann er með samning til ársins 2022 og þá er Leipzig við það að missa þýska landsliðsmanninn Timo Werner til Bayern München.

Það verður seint sagt að Jean-Kévin Augustin sé mikil markavél en hann er aðeins búinn að skora þrjú mörk í þýsku 1. deildinni vetur og þau komu í fyrstu þremur leikjum hans á tímabilinu.

Hann er aðeins búinn að byrja þrjá leiki og koma inn á tólf sinnum en Frakkinn er búinn að dúsa á bekknum sem ónotaður varamaður í þremur leikjum af síðustu fjórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×