Enski boltinn

Liverpool þarf að sjá meira af þessum Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah.
Mohamed Salah. Getty/Robbie Jay Barratt
Myndband á fésbókarsíðu Mohamed Salah sýnir manninn sem stuðningsmenn Liverpool elska en hafa séð alltof lítið af að undanförnu.

Egyptinn Mohamed Salah hefur ekki verið líkur sjálfum sér á nýju ári og það hefur komið mikið niður á sóknarleik Liverpool liðsins.

Mohamed Salah er aðeins búinn að skora eitt mark í síðustu sjö leikjum sínum í deild og Meistaradeild og hefur heldur ekki náð að leggja upp mark í þeim.





Liverpool liðið hefur líka aðeins unnið 2 af þessum 7 leikjum því fimm þeirra hafa endaði með jafntefli. Liverpool hefur ekki náð að skora í þremur leikjanna og aðeins eitt mark í tveimur til viðbótar.

Þetta er allt saman allt önnur tölfræði en framan af tímabilinu þegar Mohamed Salah virkaði óstöðvandi á hægri kantinum.

Mohamed Salah skoraði 19 mörk í fyrstu 29 leikjum sínum í deild og Meistaradeild á þessari leiktíð og gaf 8 stoðsendingar til viðbótar.

Það er því mikill munur á því að fara úr því að búa til eitt mark í leik í að búa til eitt mark í sjö leikjum.





Öll vandræðin byrjuðu eiginlega þegar Mohamed Salah fékk á sig mikla gagnrýni fyrir leikaraskap en Salah hætti eiginlega að finna markið eftir 4-3 sigur á Crystal Palace 19. janúar síðastliðinn þar sem Salah skoraði tvö mörk. Fram að og með þeim leik var hann búinn að skora 6 mörk í 6 síðustu deildarleikjum og gefa 3 stoðsendingar að auki.

Mótherjar Liverpool hafa lagt ofurkapp á að stoppa Mohamed Salah með góðum árangri og sjálfstraust hans virðist líka hafa borið hnekki.

Salah hefur verið að fá fínustu færi en klaufagangur, seinagangur og mislagðar fætur hafa séð til þess að nánast öll renna þau út í sandinn.

Auglýsingarmyndband á fésbókarsíðu Mohamed Salah sýnir hins vegar leikmann sem mikið sjálfstraust og leikmann sem hittir markið sem er eitthvað sem Mohamed Salah hefur átt í vandræðum með upp á síðkastið.

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan og það geta flestir verið sammála um það að Liverpool þurfi að sjá meira af þessum Salah ætli liðið að vinna Englandsmeistaratitilinn í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×