Enski boltinn

Pochettino í tveggja leikja bann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þessar samræður komu Pochettino í bann.
Þessar samræður komu Pochettino í bann. vísir/getty
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann af enska knattspyrnusambandinu.

Argentínumaðurinn fór yfir um eftir 2-1 tap Spurs gegn Burnley um síðustu helgi og fór ansi reiður að ræða við Mike Dean dómara en Pochettino viðurkenndi eftir leik að hann hefði farið yfir strikið.

Pochettino vissi upp á sig skömmina og bað Mike Dean opinberlega afsökunar en það kom ekki í veg fyrir það að Argentínumaðurinn fái ekki að standa á hliðarlínunni í næstu tveimur leikjum Tottenham.

Knattspyrnustjórinn missir af leikjum liðsins á móti Southampton um helgina og svo Liverpool í lok mánaðarins en báðir leikirnir fara fram á útivelli.

Auk þess að vera úrskurðaður í bann var Pochettino sektaður um 10.000 pund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×