Enski boltinn

Solskjær efstur á Solskjær-töflunni á Solskjær-síðunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ole Gunnar Solskjær vann leikinn í vesti í gærkvöldi.
Ole Gunnar Solskjær vann leikinn í vesti í gærkvöldi. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær er maðurinn í Noregi þessa dagana en árangur hans með Manchester United undanfarna mánuði hefur verið engum líkur.

Nú síðast í gærkvöldi toppaði sá norski sig með því að leggja Paris Saint-Germain, 3-1, í París eftir 2-0 tap á heimavelli í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar og þannig komst United áfram.

Norskir fjölmiðlar fylgjast vel með Solskjær enda er hann í einu stærsta stjórastarfi heims og berst fyrir því að fá starfið til frambúðar. Hann er á láni frá Molde í Noregi en sigurinn í gærkvöldi gulltryggir líklega áframhaldandi veru hans í Manchester.

Norska risablaðið Verdens Gang fylgist betur en nokkur annar miðill með Solskjær en bein útsending var úr höfuðstöðvum blaðsins í gær á meðan að leik stóð þar sem að þrír spekingar ræddu allt sem að Solskjær gerði frá upphafi til enda.

Ekki má svo gleyma forsíðu blaðsins sem kom út fyrir fyrri leikinn á móti PSG en þar voru 53 litlar myndir af brosandi Solskjær með fyrirsögninni: „53 dagar af brosum.“

Verdens Gang er með sérstaka undirsíðu á heimasíðu sinni tileinkaða öllu sem tengist Solskjær hjá Manchester United en hún ber heitið „Solskjær Spesialen.“ Ef menn skoða hana reglulega er ekki hægt að missa af einum einasta hlut tengdum þeim norska.

Þar inni koma öll nýjustu myndbönd tengd Solskjær, litlir fréttamolar sem stærri fréttir og bæði stuttar og langar umsagnir um hvern einasta leik sem Manchester United spilar undir stjórn Solskjær.

Þá er einnig stöðutaflan í ensku úrvalsdeildinni en ekki venjulega taflan þar sem að Manchester City er á toppnum og Liverpool í öðru sæti en Manchester United berst fyrir sæti í Meistaradeildinni.

Ó, nei. Á sérsíðunni um Solskjær er að sjálfsögðu Solskjær-taflan þar sem að United er efst með 32 stig, fimm stigum á undan Manchester City en United er búið að safna flestum stigum í síðustu tólf umferðum síðan að Solskjær tók við United-liðinu.

Einnig er svo hægt að senda inn skilaboð á síðuna og koma þar með spurningar nú eða bara fara yfir helstu mál tengd Ole Gunnar Solskjær, en ekki hvað?


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×