Jóhann Berg skoraði á Anfield en Liverpool fagnaði sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roberto Firmino skorar fyrsta mark Liverpool.
Roberto Firmino skorar fyrsta mark Liverpool. vísir/getty
Liverpool minnkaði forskot Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar niður í eitt stig með 4-2 sigri á Burnley í dag. Jóhann Berg Guðmundsson skoraði annað mark Burnley.

Heimamenn lentu undir strax á 6. mínútu en komu til baka og unnu mikilvægan sigur. Það er skammt stórra högga á milli hjá Liverpool en á miðvikudaginn mætir liðið Bayern München í seinni leiknum í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Ashley Westwood kom Burnley yfir með marki beint úr hornspyrnu. Liverpool-menn voru ósáttir og töldu að markið hefði ekki átt að fá að standa vegna brots á Alisson.

Roberto Firmino jafnaði fyrir Liverpool á 19. mínútu og tíu mínútum síðar kom Sadio Mané heimamönnum yfir. Hann hefur nú skorað í sex deildarleikjum á Anfield í röð.

Firmino skoraði sitt annað mark og þriðja mark Liverpool á 67. mínútu og staða Rauða hersins orðin góð. Þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma minnkaði Jóhann Berg muninn með skoti úr vítateignum eftir sendingu Matej Vydra. Íslenski landsliðsmaðurinn kom inn á sem varamaður á 79. mínútu.

Mané gulltryggði svo sigur Liverpool þegar hann skoraði fjórða mark liðsins á 93. mínútu. Lokatölur 4-2, Liverpool í vil.

Burnley hefur tapað þremur leikjum í röð. Liðið er í 17. sæti með 30 stig, tveimur stigum frá fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira