Fyrsta deildartap Solskjær kom gegn Arsenal

Anton Ingi Leifsson skrifar
Solskjær í rigningunni í dag.
Solskjær í rigningunni í dag. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær tapaði í dag sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni er Manchester United tapaði 2-0 fyrir Arsenal á útivelli. Við það missti United fjórða sætið til Arsenal.

Þetta var þrettándi deildarleikur Norðmannsins við stjórnartaumana hjá United og hefur hann unnið alla leikina nema tvo; jafntefli gegn Burnley og jafntefli gegn Liverpool.







Það var fínn kraftur í United í fyrri hálfleik þrátt fyrir alla dramatíkina í Meistaradeildinni í vikunni og það sást einnig á leikmönnum Arsenal að þeir vildu bæta upp fyrir tapið gegn Rennes. Það var fjör í fyrri hálfleik.

Fyrsta markið kom á tólftu mínútu er Granit Xhaka þrumaði boltanum í átt að marki United þar sem David de Gea réð ekkert við boltann. Mikið flökkt á boltanum og boltinn endaði í netinu. 1-0 fyrir Arsenal eftir tólf mínútur.







United fékk tækifæri til þess að jafna metin í fyrri hálfleik. Romelu Lukaku þrumaði boltanum í slá en inn vildi boltinn ekki og Arsenal var yfir í hálfleik.

Arsenal tvöfaldaði svo forystuna á 69. mínútu. Þeir fengu þá vítaspyrnu eftir að Fred gerðist brotlegur innan vítateigs. Jon Moss, dómari leiksins, benti á punktinn og úr vítinu skoraði nú Pierre-Emerick Aubameyang en hann brenndi af gegn Tottenham í síðustu viku.







Arsenal er því í fjórða sætinu með 60 stig en United er sæti neðar með 58 stig. Tottenham er í þriðja sætinu með 61 stig en Chelsea er í sjötta sætinu með 57 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira