Enski boltinn

Emery boðar taktískar breytingar fyrir leikinn gegn United

Anton Ingi Leifsson skrifar
Unai Emery er á sínu fyrsta tímabili með Arsenal.
Unai Emery er á sínu fyrsta tímabili með Arsenal. vísir/getty
Unai Emery, stjóri Arsenal, segir að hann gæti komið með taktískar breytingar er Arsenal mætir Manchester United á Emirates-leikvanginum á morgun.

Arsenal steinlá fyrir Rennes í Evrópudeildinni á fimmtudagskvöldið en hafði fyrir það verið á fínu skriði í ensku úrvalsdeildinni.

„Í síðustu leikjum í úrvalsdeildinni hefur verið að spila með miklu sjálfstrausti en leikurinn á sunnudaginn (morgun) er mjög erfiður leikur,“ sagði Emery á blaðamannafundi fyrir stórleik helgarinnar.

„Þeir eru að spila sinn besta leik á tímabilinu en við erum á heimavelli með okkar stuðningsmenn og viljum búa til stemninguna sem hjálpar okkur að spila sem best.“

Arsenal er stigi á eftir United í baráttunni um Meistaradeildarsæti svo það eru meira en bara þrjú stig í boði á Emirates á morgun.

„Þetta stóra tækifæri er enn til staðar því við erum búnar að halda stöðugleika í úrvalsdeildinni. Þegar við lendum í vandræðum í leikjum þá náum við fram góðri frammistöðu og við erum nálægt United í deildinni.“

Það er ekki langt síðan að United hafði betur gegn Arsenal í enska bikarnum, 3-1, en Emery boðar taktískar breytingar fyrir sunnudaginn.

„Við spiluðum vel og sköpuðum færi en við töpuðum. Þeir voru eins og nú á góðu augnabliki. Á sunnudaginn þurfum við að breyta til taktísklega og einstaklingslega og finna betri leiðir gegn þeim,“ sagði Emery.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×