Enski boltinn

Úr Inkasso í ensku B-deildina á nokkrum mánuðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrik stóð fyrir sínu í fyrsta leiknum fyrir aðallið Brentford.
Patrik stóð fyrir sínu í fyrsta leiknum fyrir aðallið Brentford.
Markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson þreytti frumraun sína með aðalliði Brentford þegar það bar sigurorð af Middlesbrough, 1-2, í ensku B-deildinni í dag.

Patrik, sem er 18 ára, kom inn á sem varamaður á 75. mínútu, í stöðunni 1-2. Hann hélt markinu hreinu þær mínútur sem hann lék og hjálpaði Brentford að vinna fyrsta útisigurinn á Middlesbrough í 81 ár, eða síðan 1938.

Patrik gekk í raðir Brentford síðasta sumar. Hann er uppalinn hjá Breiðabliki en í byrjun síðasta tímabils lék hann sem lánsmaður með ÍR.

Markvörðurinn lék fimm leiki með ÍR-ingum í Inkasso-deildinni síðasta sumar auk þriggja bikarleikja.

Patrik hefur leikið fyrir U-17, U-18 og U-19 ára landslið Íslands, alls 14 leiki.

Auk Patriks er Fylkismaðurinn Kolbeinn Birgir Finnsson á mála hjá Brentford. Hann gekk í raðir liðsins frá Groningen síðasta sumar.

Patrik er annar íslenski markvörðurinn sem leikur með Brentford en Ólafur Gottskálksson lék yfir 70 leiki með liðinu á árunum 2000-02.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal sem tekið var við Patrik eftir leikinn á Riverside vellinum í dag.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×