Erlent

Rannsaka son Bolsonaro vegna peningaþvættis

Kjartan Kjartansson skrifar
Flavio Bolsonaro er öldungadeildarþingmaður og sonur Brasilíuforseta.
Flavio Bolsonaro er öldungadeildarþingmaður og sonur Brasilíuforseta. Vísir/EPA

Saksóknarar í Brasilíu rannsaka nú son Jairs Bolsonaro forseta vegna gruns um peningaþvætti. Rannsóknin beinist meðal annars að tveimur lúxusíbúðum sem Flavio Bolsonaro keypti í Ríó de Janeiro.

Flavio Bolsonaro er öldungadeildarþingmaður á brasilíska þinginu. Saksóknarar í Ríó de Janeiro hafa reynt að fá Bolsonaro til skýrslutöku vegna ýmissa spillingarmála en hann hefur hafnað því að hitta þá. Rannsóknin nú er aftur á móti á vegum alríkissaksóknara sem Bolsonaro getur ekki vikið sér undan að ræða við. Ásakanirnar þykja þær vandræðalegustu fyrir Bolsonaro forseta sem bauð sig fram sem sérstakan baráttumann gegn spillingu.

Reuters-fréttastofan segir að málið tengist því hvernig Bolsonaro hafi komist í álnir á óútskýrðan hátt. Talskona Bolsonaro segir hann saklausan og að hann sé fórnarlamb pólitískra ofsókna.

Skammt er síðan hæstiréttur landsins hafnaði kröfu Bolsonaro um að rannsókn á tugum greiðslna hans til fyrrverandi bílstjóra síns yrði stöðvuð. Fjármálaeftirlitið hafði þá fundið tæplega fimmtíu grunsamlegar greiðslur á reikning Bolsonaro í einum mánuði árið 2017.

Athyglin er einnig sögð beinast að fasteignaviðskiptum þingmannsins sem leiddu til þess að eignir hans jukust gríðarlega á árunum 2014 til 2017. Á sama tíma hafi háar fjárhæðir í grunsamlegum greiðslum runnið í gegnum bankareikning bílstjórans.


Tengdar fréttir



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.