Watford rúllaði Cardiff upp

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Watford er í harðri baráttu um sæti í Evrópudeildinni að ári
Watford er í harðri baráttu um sæti í Evrópudeildinni að ári vísir/getty

Watford valtaði yfir Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. West Ham vann Fulham á heimavelli.

Aron Einar Gunnarsson sat á varamannabekknum allan tímann og horfði á liðsfélaga sína vera tekna í kennslustund af gestunum. Watford lék á alls oddi og vann 5-1, þetta var í fyrsta skipti í sögunni sem Watford nær að skora fimm mörk í úrvalsdeildinni.

Neil Warnock þyrfti að fara að lesa íslensku miðlana því þar hefur ekki lítið verið rætt hversu mikilvægur Aron Einar er fyrir lið Cardiff. Sú lexía reyndist honum dýrkeypt í kvöld.

Gerard Deulofeu skoraði þrennu fyrir Watford og Troy Deeney gerði tvö marka gestanna sem voru 1-0 yfir í hálfleik. Sol Bamba skoraði sárabótamark fyrir Cardiff seint í seinni hálfleik.

Watford fór upp fyrir Wolves í sjöunda sæti deildarinnar með sigrinum, Úlfarnir eiga þó leik til góða. Cardiff situr eftir í 17. sætinu og á í hættu á að detta niður í fallsæti um helgina.

West Ham og Fulham mættust í Lundúnaslag. Ryan Babel kom gestunum í Fulham yfir strax á þriðju mínútu leiksins en mörk frá Javier Hernandez og Issa Diop tryggðu West Ham forystuna inn í leikhléið.

Í uppbótartíma seinni hálfleiks skoraði Michail Antonio svo þriðja mark West Ham og gulltryggði 3-1 sigur.

Jöfnunarmark Javier Hernandez hefði þó ekki staðið í flestum af stærstu deildum Evrópu þar sem myndbandsupptökur sýndu að hann skallaði boltann ekki í netið heldur fór hann af hendinni á Mexíkóanum.

Enska úrvalsdeildin er þó ekki komin með VAR tæknina enn og því fékk markið að standa.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.