Erlent

320 hermenn hafa flúið til Kólumbíu á fjórum dögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vesti hermannanna.
Vesti hermannanna. AP/Christine Armario
Undanfarna fjóra daga hafa minnst 320 hermenn flúið frá Venesúela til Kólumbíu. Það gerðu þeir í kjölfar þess að þeim var skipað að koma í veg fyrir að hjálpargögnum yrði hleypt yfir landamærin. Flestir hermannanna eru lágt settir innan hersins.

Blaðamaður AP fréttaveitunnar ræddi við nokkra þeirra 40 hermanna sem eiga ekki ættingja í Kólumbíu og búa í neyðarskýli skammt frá landamærunum.Meðal annars sögðust þeir hafa óttast að vera fangelsaðir og því hefðu þeir hlýtt þeim skipunum að koma í veg fyrir að hjálpargögnunum yrði hleypt inn í landið og viðurkenndu þeir að hafa skotið táragasi að mótmælendum. Þá sögðust tveir hafa komið að ráðabruggi um að lauma hjálpargögnunum yfir. Allir segja það hafa verið skyndiákvörðun að flýja yfir landamærin og þeir hafi flúið með ekkert nema herbúninga sína.

Þrátt fyrir að sífellt fleiri hermenn virðist gerast liðhlaupar, segja hermennirnir að það sé einungis dropi í hafið. Allt í allt eru um 200 þúsund hermenn í Venesúela og þeir segja gífurlega erfitt að flýja þaðan. Allir sem sýni minnstu óánægju séu fangelsaðir og jafnvel pyntaðir.

Andstæðingar Nicolas Maduro, forseta landsins, hafa kallað eftir því að herinn láti af stuðningi sínum við hann en hingað til hafa æðstu menn hersins ekki orðið við því og ólíklegt þykir að það gerist.

Einn hermannanna sagði ljóst að Maduro myndi aldrei láta af völdum án inngrips alþjóðasamfélagsins og jafnvel hernaðaríhlutunar.

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.