Erlent

Fundur Trump og Kim hafinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump og Kim í Hanoi.
Trump og Kim í Hanoi. AP/Evan Vucci
Fundur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, í Hanoi í Víetnam er hafinn. Leiðtogarnir hittust nú fyrir skömmu þar sem þeir fögnuðu hvorum öðrum og héldu svo til kvöldverðar. Trump sagðist vonast til þess að þessi fundur þeirra myndi skila meiri árangri en fundur þeirra í Singapúr í fyrra. Forsetinn sagðist telja þann fund hafa gengið gífurlega vel og að þessu sinni myndi frábært samband þeirra ráða úrslitum. Áður hefur Trump haldið því fram að þeir hafi „orðið ástfangnir“ í Singapúr.

Trump sagði einnig, eins og hann hefur gert áður, að Norður-Kórea gæti orðið efnahagslegt stórveldi og hann vildi hjálpa til við það.

„Kim Jong Un og ég munum reyna að komast að samkomulagi varðandi afkjarnavopnun og svo reyna að gera Norður-Kóreu að efnahagslegu stórveldi,“ sagði Trump. Er um að ræða mikla breytingu frá því að Trump kallaði Kim meðal annars „stuttan og feitan“ og Kim sagði Trump vera geðveikan.

Aðspurður hvort hann myndi lýsa yfir formlegum enda Kóreustríðsins, eins og yfirvöld Norður-Kóreu hafa óskað eftir, sagði Trump: „Við sjáum til.“

Formlegar viðræður Trump og Kim mun hefjast á morgun. Sérfræðingar segja einstaklega ólíklegt að Kim muni nokkurn tíma samþykkja að láta kjarnorkuvopn sín af hendi. Kim lítur á kjarnorkuvopn sem tryggingu gegn því að honum eða afkomendum hans verði velt úr sessi með valdi.

Í aðdraganda fundarins hefur Trump og Hvíta húsið reynt að draga úr væntingum fyrir fundinn og þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar Trump eftir fund þeirra í Singapúr í fyrra, þar sem þeir skrifuðu undir óljóst samkomulag um afkjarnavopnun, hefur lítið sem ekkert gengið síðan þá.

Samninganefndir Bandaríkjanna og Norður-Kóreu hafa ekki einu sinni komist að samkomulagi um hvað afkjarnavopnun þýði í rauninni.

Undanfarna daga hefur Trump sagt að hann yrði ánægður svo lengi sem Kim samþykki að láta af tilraunum með kjarnorkuvopn og eldflaugar.


Tengdar fréttir

Óttast að Trump geri slæmt samkomulag til að geta lýst yfir sigri

Sérfræðingar og ráðamenn í Bandaríkjunum að Donald Trump, forseti, muni gera slæmt samkomulag við Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, til að geta státað sig af vel heppnuðum samningaviðræðum þeirra þegar þeir hittast í Hanoi í Víetnam á miðvikudaginn.

„Mér er alveg sama. Ég trúi Pútín“

"Mér er alveg sama. Ég trúi Pútín,“ er Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagður hafa sagt við embættismenn innan njósnakerfis Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×