Innlent

Reiknar með frekari skærum veiðirétthafa þrátt fyrir málalok í Landsrétti

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
„Þetta er mjög ánægjulegt fyrir okkur sem vinnum að uppbyggingu fiskeldis á Íslandi,“ segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax. Landsréttur staðfesti í síðustu viku niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur og vísaði frá kröfum fyrirtækjanna Akurholts og Geiteyrar, sem eru veiðiréttarhafar í Haffjarðará, á hendur Arnarlaxi, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Krafist var ógildingar á starfs- og rekstrarleyfi Arnarlax.

Veiðirétthafarnir höfðuðu málið í maí í fyrra og töldu villtum laxastofnum steðja hætta af laxeldinu og þar af leiðandi væri vegið að hagsmunum þeirra sem veiðirétthafar í Haffjarðará.

„Þarna staðfestir Landsréttur dóm héraðsdóms um frávísun og þar með að þessar ásakanir séu tilhæfulausar.“ segir Kjartan.

Hann segir að Arnarlax stefni á að halda áfram að byggja upp starfsemina en reiknar ekki með því að veiðirétthafar láti staðar nema þrátt fyrir niðurstöðu Landsréttar. 

„Laxeldið er auðvitað ný grein á Íslandi og ég held að það sé viðbúið að þessar skærur haldi áfram,“ segir Kjartan og segir þetta tiltekna leyfi sem bitist var um fyrir dómi hafi farið í gegn um langt ferli.

„Bæði í gegn um leyfisferlana sjálfa með kynningarfrestum og þess háttar og úrskurðarnefndum og loks þessu einkamáli sem væntanlega lýkur þarna. Eftir allan þennan tíma ætla ég ekki að vanmeta sköpunargleði þessara aðila og búumst við því að þeir haldi áfram í einhverju formi. En þetta býr þó til ákveðin ramma og staðfestir að þessar ásakanir eru tilhæfulausar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×