Erlent

Talin hætta á stjórnarslitum vegna Salvinis

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Salvini vill forðast réttarhöld. Fréttablaðið/EPA
Salvini vill forðast réttarhöld. Fréttablaðið/EPA
Fimm stjörnu hreyfingin, annar ítölsku stjórnarflokkanna, heldur stafræna atkvæðagreiðslu í dag um hvort flokkurinn ætli að koma í veg fyrir möguleg réttarhöld yfir Matteo Salvini, leiðtoga Bandalagsins, hins stjórnarflokksins. Þetta kom fram á vef hreyfingarinnar í gær en atkvæðagreiðsla um réttarhöldin fer fram í þingnefnd á þriðjudag.

Saksóknarar í Catania á Sikiley vilja halda áfram rannsókn á meintri misbeitingu valds og mannráni sem á að hafa átt sér stað þegar Salvini fyrirskipaði að um 150 flóttamönnum skyldi vera haldið í ítölskum landhelgisgæsluskipum í fimm daga í ágúst síðastliðnum.

Ríkisfréttastofan Ansa hafði eftir heimildarmönnum innan Fimm stjörnu hreyfingarinnar í gær að málið gæti hæglega fellt stjórnina, fari svo að hreyfingarfólk ákveði að standa ekki í vegi fyrir saksóknurum. Sambandið á milli stjórnarflokkanna er stirt nú þegar vegna deilna um hin ýmsu mál.

Salvini hefur sjálfur farið fram á við öldungadeild þingsins að hafna beiðni um réttarhöld. Það skapar vandamál fyrir Fimm stjörnu hreyfinguna sem hefur ítrekað gagnrýnt stjórnmálamenn fyrir að nota vald sitt til að komast hjá réttarhöldum. Stjórnmálaskýrandi hjá Fatto Quotidiano sagði Fimm stjörnu hreyfinguna í ákveðinni tilvistarkreppu vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×