Erlent

Nýr flokkur í Póllandi mælist sá þriðji stærsti

Atli Ísleifsson skrifar
Robert Biedron er 42 ára og starfaði sem borgarstjóri Slupsk í norðvesturhluta landsins á árunum 2014 til 2018.
Robert Biedron er 42 ára og starfaði sem borgarstjóri Slupsk í norðvesturhluta landsins á árunum 2014 til 2018. Getty
Nýstofnaði stjórnmálaflokkurinn Wiosna, sem útleggst Vor á íslensku, mælist nú sá þriðji stærsti í Póllandi í skoðanakönnunum.

Robert Biedron, formaður flokksins, hefur komið eins og stormsveipur inn í pólsk stjórnmál að undanförnu, en hann er samkynhneigður og hefur áður starfað sem borgarstjóri Slupsk. Er ljóst að uppgangur flokksins gæti skapað vandræði fyrir hinn íhaldssama stjórnarflokk, Lög og réttlæti (PiS). Þingkosningar fara fram í landinu síðar á árinu.

Biedron kynnti stefnuskrá Wiosna um liðna helgi. Flokkurinn er staðsettur vinstra megin við miðju og gengur þvert gegn stefnu PiS í fjölda mála. Þannig er flokkurinn jákvæður í garð Evrópusamvinnunnar, vill rýmka löggjöf um fóstureyðingar, vill hverfa frá kolanotkun landsins í áföngum fram til ársins 2035 og leggja auknar skattaálögur á hina valdamiklu kaþólsku kirkju í landinu.



Vill ná til kjósenda sem mæta vanalega ekki á kjörstað

Kosningaþátttaka er jafnan lág í Póllandi og vonast Biedron til að ná til þeirra sem mæta vanalega ekki á kjörstað og þeirra sem eru langþreyttir á stöðugum átökum Póllandsstjórnar og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Biedron hefur sakað ráðamenn PiS um valdamisnotkun og segist munu koma sérstakri sannleiksnefnd á laggirnar til að rannsaka meint brot, komist Wiosna til valda eftir kosningarnar síðar á árinu. Enn á eftir að boða til kosninga, en er ljóst að þær munu í síðasta lagi fara fram í nóvember.



Þriðji stærsti

Formaðurinn Biedron er 42 ára og starfaði sem borgarstjóri Slupsk í norðvesturhluta landsins, frá 2014 til 2018. Í fyrstu skoðanakönnun TVN, sem gerð er eftir að flokkurinn kynnti stefnuskrána, mælist Wiosna sá þriðji stæsti. Sögðust 14 prósent aðspurðra styðja flokkinn. Stjórnarandstöðuflokkurinn Borgaravettvangur mældist með 20 prósent fylgi og stjórnarflokkurinn PiS 29 prósent.

„Breytingar eru mögulegar,“ sagði Biedron, aðspurður um niðurstöður könnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×