Enski boltinn

Fyrstur síðan Ferguson að verða stjóri mánaðarins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ole Gunnar hefur ekki enn tapað.
Ole Gunnar hefur ekki enn tapað. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var valinn stjóri janúarmánaðar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en valið var kunngjört í dag.

Solskjær er fyrsti knattspyrnustjóri Manchester United sem hlýtur þessa nafnbót síðan að Sir Alex Ferguson var stjóri mánaðarins í október árið 2012. David Moyes, Louis van Gaal og José Mourinho komu allir og fóru án þess að verða stjóri mánaðarins.

Norðmaðurinn hefur farið frábærlega af stað með United-liðið og á enn eftir að tapa leik en hann vann þrjá leiki í deildinni og gerði eitt jafntefli í janúar.

Undir stjórn Solskjær vann liðið Newcastle, Tottenham og Brighton en gerði svo jafntefli á heimavelli við Jóhann Berg Gunnarsson og félaga í Burnley en þar kom United til baka eftir að lenda 2-0 undir.

United er nú í fimmta sæti deildarinnar með 48 stig, aðeins tveimur stigum frá Chelsea í fjórða sætinu og er í alvöru baráttu um sæti í Meistaradeildinni. Slíkt virtist útilokað eftir tapið gegn Liverpool 17. desember sem varð banabiti José Mourinho.

Manchester United mætir Fulham í hádegisleik enska boltans á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×