Enski boltinn

Lygilegur endir er Sheffield United kastaði frá sér mikilvægum stigum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Darraðadans í kvöld.
Darraðadans í kvöld. vísir/getty
Sheffield United kastaði frá sér 3-0 forystu gegn Aston Villa á Villa Park í kvöld er liðin gerðu 3-3 jafntefli. Jöfnunarmark Aston Villa kom á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Fyrsta markið kom eftir ellefu mínútur er Billy Sharp opnaði markareikning sinn í kvöd en þessi 33 ára gamli framherji hefur farið um víðan völl á sínum ferli.

Hann tvöfaldaði forystuna á 53. mínútu en markið var kolólöglegt. Sharp var fyrst um sinn rangstæður og sparkaði svo boltanum úr höndunum á Lovre Kalinic, markverði Aston Villa, og í netið. Ekkert dæmt og 2-0 fyrir Sheffield.

Þeir virtust vera að gera út um leikinn er Billy Sharp skoraði þriðja mark sitt og Sheffield á 62. mínútu en heimamenn í Aston Villa voru ekki af baki dottnir.

Tyrone Mings minnkaði muninn átta mínútum fyrir leikslok og fjórum mínútum síðar fylgdi Tammy Abraham eftir skoti sem Dean Henderson hafði varið út í teiginn.

Það var svo í uppbótartíma er varamaðurinn Andre Green jafnaði með skalla og lokatölur 3-3 eftir lygilegan lokakafla.

Mikilvæg stig í súginn hjá Sheffield sem er í mikilli toppbaráttu. Með sigri hefði Sheffield farið á toppinn, að minnsta kosti þangað til á morgun, en er þess í stað í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Leeds og Norwich.

Birkir Bjarnason var ónotaður varamaður hjá Aston Villa í kvöld en þeir eru í áttunda sæti deildarinnar. Þeir eru með 44 stig og eru þremur stigum frá umspilssæti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×