Erlent

Leita aðstoðar vegna óhóflegrar áreitni í garð Meghan og Katrínar á samfélagsmiðlum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín hertogaynja af Cambridge og Meghan hertogaynja af Sussex hafa lengi verið sagðar elda grátt silfur saman. Lítið virðist þó til í þeim orðrómum.
Katrín hertogaynja af Cambridge og Meghan hertogaynja af Sussex hafa lengi verið sagðar elda grátt silfur saman. Lítið virðist þó til í þeim orðrómum. Getty/UK Press Pool/
Kensingtonhöll, sem fer með málefni hertogahjónanna af Cambridge og Sussex, hefur beðið samfélagsmiðlanna Instagram og Twitter um hjálp í baráttu við gríðarlega áreitni sem hertogaynjurnar Katrín og Meghan verða fyrir á miðlunum.

Bandaríska fréttastofan CNN hefur eftir heimildarmanni sínum að höllin hafi beðið stjórnendur Instagram og Twitter um að hafa eftirlit með andstyggilegum athugasemdum notenda sem skrifaðar eru við færslur tengdar hertogaynjunum. Athugasemdirnar eru gjarnan ritaðar af „stuðningsmönnum“ annarrar og beinast þá gegn hinni.

Sjá einnig: Drottningin sögð hafa fengið sig fullsadda af meintum deilum Meghan og Katrínar

Haft er eftir heimildarmanninum að verkefnið hafi reynst afar erfitt þar sem téð áreitni sé svo umfangsmikil. Þá eru ummælin sem samfélagsmiðlanotendur viðhafa um hertogaynjurnar sögð bæði lituð kvenfyrirlitningu og kynþáttafordómum.

Kensingtonhöll hefur hingað til gripið til þess ráðs að ritskoða athugasemdir notenda á samfélagsmiðlum sínum. Heimildarmaður CNN segir það hafa gengið vel, sérstaklega á Instagram þar sem innanbúðarmenn hafi tekið vel í að aðstoða talsmenn hallarinnar.

Töluvert hefur verið fjallað um meintan ágreining Katrínar og Meghan í breskum götublöðum og fjölmiðlum vestanhafs. Kensingtonhöll hefur  gefið út yfirlýsingar um að ekkert sé hæft í orðrómum um slíkt.

Svo virðist sem ágreiningurinn sé þó raunverulegur á milli aðdáenda Katrínar annars vegar og Meghan hins vegar. Áreitnin í þeirra garð á samfélagsmiðlum varð að lokum kveikjan að herferðinni #HelloToKindness, sem hleypt var af stokkunum á mánudag og ætlað er að stemma stigu við hinni neikvæðu orðræðu.


Tengdar fréttir

Heldur úti „leynilegum“ Instagram-reikningi

Meghan Markle hertogynjan af Sussex heldur að sögn vinar hennar úti "leynilegum“ Instagram-reikningi til að forðast fjölmiðla og halda sambandi við vini sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×