Erlent

Stjórnarmaður í FIFA tekur við konungsembætti í Malasíu

Atli Ísleifsson skrifar
Abdúlla tekur við embættinu af Múhammeð fimmta.
Abdúlla tekur við embættinu af Múhammeð fimmta. EPA
Abdúlla hefur svarið embættiseið sem nýr konungur Malasíu. Hann tekur við embættinu af Múhammeð fimmta sem afsalaði sér óvænt völdum í byrjun árs í kjölfar þess að hafa gengið að eiga fyrrverandi fegurðardrottningu frá Moskvu.

Hinn 59 ára Abdúlla er mikill áhugamaður um íþróttir á meðal annars sæti í stjórn Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA.

Sýnt var beint frá embættistöku nýs konungs í höfuðborginni Kúala Lúmpúr í malasísku sjónvarpi. Mahathir Mohamad, forsætisráðherra landsins, var í hópi nokkur hundruð manna sem sóttu athöfnina.

Gengur á milli manna

Konungurinn í Malasíu er kjörinn af níu soldánum frá níu ríkjum Malasíu og mynda þeir saman sérstakt ríkisráð. Embættið færist milli soldánanna og var nú komið að ríkinu Pahang.

Skipunartímabil konungs Malasíu er fimm ár og hefur hann lítil sem engin eiginleg völd, þrátt fyrir að vera þjóðhöfðingi Malasíu.

Ákvörðun Múhammeð fimmta að afsala sér völdum kom nokkuð á óvart enda var það í fyrsta skipti síðan Malasía öðlaðist sjálfstæði árið 1957 sem konungur segir af sér embætti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×