Innlent

Tveimur pottum og vaðlaug lokað í Vesturbæjarlaug vegna kuldans

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Heitasti potturinn sést hér í forgrunni og plastpotturinn Örlygshöfn er aftast á mynd. Þeim hefur báðum verið lokað vegna kuldans.
Heitasti potturinn sést hér í forgrunni og plastpotturinn Örlygshöfn er aftast á mynd. Þeim hefur báðum verið lokað vegna kuldans. Mynd/Reykjavíkurborg

Tveimur heitum pottum og vaðlaug var lokað í Vesturbæjarlaug í dag vegna kuldakastsins sem nú gengur yfir landið. Gripið var til þessara aðgerða svo anna mætti heitavatnsþörf laugarinnar í kuldanum.

Lokanirnar ná til heitasta pottsins og plastpottsins Örlygshafnar. Þá var vaðlaugarhluta nýju pottanna einnig lokað og næst því að halda hita á sundlauginni og í sturtunum.


Greint var frá lokununum á Facebook-síðu Vesturbæjarlaugar í morgun. Guðrún Arna Gylfadóttir forstöðumaður Vesturbæjarlaugar segir í samtali við Vísi að ákvörðunin hafi verið tekin þegar ljóst var að lagnakerfi laugarinnar stæði ekki undir heitavatnsþörfinni.

„Þetta hefur verið lokað frá því um níu í morgun og verður frameftir í dag. Við tökum svo stöðuna á morgun,“ segir Guðrún.

Aðspurð segir hún að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem gripið hafi verið til slíkra lokana.

„Já já, ekki kannski svona margir samt en við reynum hvað við getum,“ segir Guðrún. „Með þessu sáum við fram á að geta haldið úti þjónustunni. En það eru sannarlega færri gestir hjá okkur, ekkert skólasund til dæmis.“

Þá segir hún sundlaugargesti taka vel í þessi neyðarúrræði stjórnenda laugarinnar.

„Tveir pottar eru betri en enginn!“ segir Guðrún.

Nístingskuldinn á landinu hefur víða haft áhrif á stórnotendur heitavatns, einkum sundlaugarnar. Í dag var til að mynda tilkynnt um að loka þyrfti sundlaugum í Árborg vegna kuldans. Ekki hafa þó borist tilkynningar um að grípa þurfi til lokana í öðrum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.